Markmiðið með störfum nefndarinnar er skapa grundvöll til að tryggja fólki með skerta starfsgetu fjölbreytt störf, og þar með bætt lífskjör þeirra. Nefndinni er einnig ætlað að leita leiða til að aukinni velferð á vinnumarkaði, með áherslur á aðgerðir til að styðja endurkomu á vinnumarkað og draga úr brotthvarfi þaðan.
Í frétt ráðuneytisins kemur fram að í nefndinni munu sitja fulltrúar ráðuneyta, samtaka launafólks, atvinnurekenda, sveitarfélaga og hagsmunasamtaka. Nefndinni er ætlað að viðhafa víðtækt samráð við þá sem við eiga. Öryrkjabandalagið hefur þegar fengið boð ráðuneytisins um að tilnefna fulltrúa í nefndina.
Fyrstu tillögur nefndarinnar eiga að berast ráðherra í október 2022, með áherslum um fjölgun hluta- og sveigjanlegra starfa. Í nóvember á nefndin að skila tillögum um aðgerðir er snúa að velferð á vinnumarkaði. Í lok ársins er svo gert ráð fyrir að nefndin skili skýrslu með niðurstöðum, heildartillögum og greinargerð um vinnu nefndarinna.
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, segir þetta jákvætt og leggur áherslu á að árangurinn af starfi nefndarinnar verði að vera sá að fjölbreyttum hluta- og sveigjanlegum störfum með viðeigandi aðlögun fjölgi. Heimsfaraldur kórónuveiru hefur sýnt okkur að viðhorf hafa breyst talsvert, sem og óskir starfsmanna. Óttinn við til að mynda fjarvinnu hefur reynst ástæðulaus.
„Við höfum kallað eftir aðgerðum til fjölgunar hluta- og sveigjanlegra starfa því þau eru forsenda þess að fatlað fólk hafi tækifæri til þátttöku á vinnumarkaði.“
Í fréttinni er haft eftir Guðmundi Inga Guðbrandssyni, félags- og vinnumarkaðsráðherra að markmið vinnunnar sé að boða byltingu á vinnumarkaði með fjölgun hlutastarfa og sveigjanlegra starfa og „að tryggja hér sveigjanlegri, heilbrigðari og traustari vinnumarkað fyrir öll sem hér búa, fyrir fatlað fólk, fyrir innflytjendur, fyrir fólk sem hefur veikst eða ekki náð að fóta sig í lífinu. Skipun nefndarinnar er hluti af aðgerðum er snúa að því að bæta afkomu og möguleika fólks með mismikla starfsgetu til aukinnar virkni, menntunar og atvinnuþátttöku á forsendum hvers og eins með það að markmiði að bæta lífskjör og lífsgæði fólks“
Þuríður Harpa segir það jákvætt að þessi vinna verði sprettvinna, það er mikilvægt að sjá aðgerðir sem fyrst. Það er jafnframt mikilvægt að að efla endurhæfingu og starfs endurhæfingu sem tekur á móti fólki sem einhverra hluta vegna missir starfsgetu sína, eða hluta hennar. Þá er mikilvægt að tryggja sem best að fólk sitji ekki fast á biðlistum, svo hægt verði að ná settum markmiðum.
Í kjölfar skýrslu nefndarinnar í lok árs 2022, hyggst ráðherra boða til Vinnumarkaðsþings, þar sem afrakstur vinnunnar verður kynntur.