Fyrr í dag var samstarfssamningur Hringsjár náms- og starfsendurhæfingar, Borgarholtsskóla, Fjölbrautarskólans við Ármúla, Fjölbrautarskólans í Breiðholti og Tækniskólans undirritaður í húsnæði Hringsjár.
Hringsjá hefur verið í miklu samstarfi við áður talda framhaldsskóla en með formlegum samstarfsamningi verður nám Hringsjár metið til framhaldsskólaeininga. Þetta samkomulag hefur mikla þýðingu fyrir starfsemi og nemendur Hringsjár sem fá með þessu móti aukin tækifæri til frekara náms.
Undir samstarfssamninginn rituðu Ársæll Guðmundsson skólameistari Borgarholtsskóla, Magnús Ingvason skólameistari Fjölbrautarskólans við Ármúla, Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir skólameistari Fjölbrautarskólans í Breiðholti og Hildur Ingvarsdóttir skólameistari Tækniskólans. Fyrir hönd Hringsjár voru Þuríður Harpa Sigurðardóttir formaður ÖBÍ réttindasamtaka, Elfa S. Hermannsdóttir fyrir hönd stjórnar og Helga Eysteinsdóttir forstöðumaður.
Hringsjá náms- og starfsendurhæfing hefur verið starfandi frá árinu 1987 og er í eigu ÖBÍ réttindasamtaka.