Skip to main content
FréttKjaramál

Minnisblað sent þingmönnum um stöðu fatlaðs fólks

By 12. desember 2023No Comments

ÖBÍ réttindasamtök sendu Alþingismönnum minnisblað í gær vegna nýrrar skýrslu Vörðu og ÖBÍ um stöðu fatlaðs fólks á Íslandi. Minnisblaðið í heild má lesa hér:

Skýrsla Vörðu um stöðu fatlaðs fólks á Íslandi – 2023

Framkvæmdastjóri Vörðu, rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins, kynnti 6. desember sl. niðurstöður nýrrar rannsóknar Vörðu og ÖBÍ réttindasamtaka um stöðu fatlaðs fólks. ÖBÍ réttindasamtök hvetja þingmenn til að kynna sér niðurstöður rannsóknarinnar og setja þær í samhengi við fjárlagafrumvarp ársins 2024 sem nú er til meðferðar á Alþingi.

Rannsóknin byggir á könnun sem var lögð fyrir þau sem voru með örorku- eða endurhæfingarlífeyrisréttindi eða örorkustyrk hjá TR 1. október 2023. Helstu niðurstöðu sýna að:

  • Sjö af hverjum tíu búa við slæma andlega líðan.
  • 10% hafa nær daglega hugsað um að það væri betra ef þau væru dáin eða hugsað um að skaða sig.
  • Ríflega fjögur af hverjum tíu hafa neitað sér um tannlækna- og sálfræðiþjónustu, oftast vegna kostnaðar.
  • Meira en helmingur metur fjárhagsstöðu sína nokkuð eða mun verri en fyrir ári.
  • Ríflega þriðjungur býr við efnislegan skort eða verulegan efnislegan skort.
    • Tæplega tvö af hverjum tíu búa við verulegan efnislegan skort eða sárafátækt.
  • Tæplega sjö af hverjum tíu geta ekki mætt óvæntum 80.000 kr. útgjöldum án þess að stofna til skuldar.
  • Meira en helmingur þarf að neita sér um nauðsynlegan klæðnað, næringarríkan mat og félagslíf vegna fjárhagsstöðu sinnar.
  • Fjögur af hverjum tíu geta ekki greitt fyrir grunnþætti fyrir börn s.s. tómstundir, félagslíf.
  • Fjögur af hverjum tíu geta ekki gefið börnum sínum jóla og/eða afmælisgjafir vegna slæmrar fjárhagsstöðu.
  • Tæplega helmingur býr við þunga byrði af húsnæðiskostnaði.
  • Staða einhleypra foreldra með örorkulífeyri, endurhæfingarlífeyri eða örorkustyrk er á nær öllum mælikvörðum enn verri en annarra.

Í skýrslunni er nánari sundurliðun og útskýringar á öllum þessum og fleiri liðum. Upptöku af kynningunni og skýrsluna í heild sinni má finna hérna:

Skýrslan: https://www.rannvinn.is/_files/ugd/61b738_7fd8a5d39b6a4f658cb9c14cd87d2c82.pdf

Kynningin: https://www.obi.is/frettir-og-vidburdir/frett/kynning-a-nidurstodum-rannsoknar-a-stodu-fatlads-folks-a-islandi/

Samkvæmt forsendum frumvarps til fjárlaga ársins 2024 er miðað við að lífeyrir almannatrygginga hækki um 4,9% frá og með 1. janúar í samræmi við þjóðhagsspá Hagstofu Íslands frá júní 2023. Verðbólga er 8% en nýjasta þjóðhagsspá gerir ráð fyrir að hún verði 5,6% á árinu 2024. Áætlun um 4,9% hækkun fjárhæða almannatrygginga mun ekki halda í við verðbólgu, jafnvel þó hún hjaðni hægt á næstu misserum. Þar fyrir utan er staða þessa hóps það slæm að mun meira þarf að koma til ef bæta á úr stöðunni.

ÖBÍ réttindasamtök leggja til í umsögn um frumvarp til fjárlaga ársins 2024 að örorkulífeyrir verði hækkaður um 12,4% þann 1. janúar 2024. Sú hækkun ætti að stemma stigu við hækkun matar og drykkjar sem er samkvæmt Hagstofu Íslands um 35% af ráðstöfunartekjum tekjulægstu hópa samfélagsins. Fjárhagstaða örorku- og endurhæfingarlífeyristaka er mjög alvarleg eins og fram kemur í niðurstöðum rannsóknar Vörðu og ÖBÍ og búa um 20% hópsins við sárafátækt. Slæm fjárhagsstaða veldur því að fólk getur ekki sinnt grunnþörfum sínum og barna sinna, s.s. að kaupa næringarríkan mat, leita læknisaðstoðar og leysa út lyf. Auk þess veldur staðan fólki mikilli andlegri vanlíðan.

ÖBÍ hvetur eindregið til að a.m.k. þeir 16 milljarðar króna sem á að setja inn í almannatryggingakerfið frá 1. janúar 2025, sem hluta af endurskoðun kerfisins, verði settir inn í kerfið strax 1. janúar 2024. Þeir fjármunir verði notaðir til eftirfarandi aðgerða:

  • Fjárhæðir almannatrygginga verði hækkaðar almennt um áðurnefnd 12,4% í stað 4,9% eins og fjárlagafrumvarpið kveður á um.
  • Greiðsluflokkarnir örorkulífeyrir, tekjutrygging og heimilisuppbót verði að auki hækkaðir sérstaklega þannig að samtala þeirra sé að lágmarki jafn há framfærsluviðmiðum sem tilgreind eru í 2. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með áorðnum breytingum.
    • Þar með væri tekjuskerðing framfærsluuppbótar frá fyrstu krónu afnumin hjá öllum örorku- og endurhæfingarlífeyristökum sem eru með fullan búseturétt. Jafnframt væri dregið verulega úr þeirri skerðingu hjá þeim sem ekki eru með fullan búseturétt.
  • Frítekjumörk verði hækkuð verulega sbr. tillögur í umsögn ÖBÍ um fjárlagafrumvarp 2024.

Einnig hvetur ÖBÍ til eftirfarandi aðgerða varðandi húsnæðisbótakerfið:

  • Grunnfjárhæðir húsnæðisbóta verði hækkaðar um 12,4%.
  • Tekju- og eignamörk verði hækkuð, sbr. tillögur í umsögn ÖBÍ um fjárlagafrumvarp 2024.
  • Bifreiðar sem keyptar hafa verið með bifreiðakaupastyrk frá TR og eru skráðar sem hjálpartæki verði undanþegnar útreikningi eignamarka.

Loks leggur ÖBÍ til eftirfarandi aðgerðir varðandi heilbrigðismál:

  • Kostnaðarþátttaka sjúkratrygginga vegna tannlækninga verði aukin í a.m.k. 80%.
  • Samið verði án frekari tafa um niðurgreiðslu þjónustu sjálfstætt starfandi sálfræðinga og annarra sem veita viðtalsmeðferð, sbr. lög nr. 93/2020 um breytingu á lögum um sjúkratryggingar. Ef ekki almennt þá sértækt fyrir lífeyristaka með svipuðu sniði og nú er vegna tannlækninga.
  • Samið verði við sjúkraþjálfara án frekari tafa.

Niðurstöður rannsóknarinnar eru svartar og sýna að í raun ríkir neyðarástand á högum þessa hóps sem ekki getur beðið lengur eftir kjarabótum eða öðrum aðgerðum til að bæta stöðu þeirra. Fyrirhugað 16 milljarðar króna fjárframlag sem á að setja inn í almannatryggingakerfið frá 1. janúar 2025 breytir ekki neyð hópsins í dag.

Ætlar þingheimur að láta þennan hóp bíða í ár í viðbót?

Hversu alvarlegt þarf ástandið að vera til að brugðist sé við því strax?