Velferðarráðuneytið í samvinnu við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Sjálfsbjörg, landssamband hreyfihamlaðra, boðar til ráðstefnu og málstofa dagana 7. – 8. nóvember á Hótel Hilton undir yfirskriftinni Tímamót í velferðarþjónustu.Þar verður reynt að varpa ljósi á vegferðina sem fram undan er og hvað við þurfum að gera til þess að hún verði farsæl.
Öflugir frummælendur
Meðal frummælenda verða Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands, Rúnar Björn Þorkelsson Herrera, formaður NPA-miðstöðvarinnar og formaður málefnahóps ÖBÍ um sjálfstætt líf og Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar. Auk þess taka þátt í ráðstefnunni stjórnmálafólk og sérfræðingar víða að.
Sjálfstætt líf og samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verða sömuleiðis í brennidepli á ráðstefnunni. Eins verður fjallað um framkvæmd samningsins, notendasamráð og margt fleira.
Aðgangur að ráðstefnunni er ókeypis og er fólk hvatt til þess að skrá sig og sækja ráðstefnuna, sem haldin verður á Hótel Hilton Nordica í Reykjavík, dagana 7. og 8. nóvember næstkomandi.