Áhugaverð grein eftir Halldór Gunnarsson fyrrverandi sóknarprest í Holti.
„Boðaðar bætur á löggjöfinni boða litla hækkun hjá þeim, sem minnst fá, og vinna gegn aðalmarkmiðum frumvarpsins.“
Nær enginn árangur hefur náðst í að leiðrétta skerðingar á kjörum eldri borgara og öryrkja frá 2009. Greiðslur almannatrygginga hafa ekki fylgt hækkunum lægstu launa. Þar munar 50-60% miðað við daginn í dag. Á árinu 2015 hækkuðu lágmarkslaun verkafólks um 14,5% og byrjunarlaun fiskvinnufólks um 30% og annarra stétta mun meira, en lífeyrir aldraðra og öryrkja hækkaði um 3% .
Allir fengu greiddar afturvirkar hækkanir í samningum, mismunandi langan tíma, nema eldri borgarar og öryrkjar! Í ársbyrjun 2016 hækkaði þessi lífeyrir um 9,7%. Lægstu launin hækkuðu þá til viðbótar um 6,2 %, með skilyrðum um að engin laun myndu hækka um minna en 15.000.- kr. á mánuði. Nýlega hafa laun nokkurra forstöðumanna ríkisstofnana verið hækkuð af kjararáði um 30 til 48% afturvirkt til 1. desember 2014, sem kemur til viðbótar 7,15% hækkun opinberra starfsmanna frá 1. júní sl.!
Lífeyrissjóðakerfi landsins, sem eldri borgarar hafa byggt upp, mismunar lífeyrisþegum verulega, þannig að þeir lífeyrissjóðir, sem greiða 40 til um 100 þúsund á mánuði til eldri borgara, greiða aðeins hlut almannatrygginga, sem þeir hefðu annars fengið, með skerðingunni krónu á móti krónu.
Ef miðað er við sama ár, 2009, hafa öll útgjöld eldri borgara og öryrkja hækkað um 30 til 50%, s.s. hækkanir á leigu húsnæðis og öll þjónustugjöld og sjúkragjöld. Enn fremur hefur sjúkraþjónusta og aðhlynning fyrir aldraða og öryrkja skerst verulega og niðurgreiðsla á nauðsynlegum sjúkratækjum hefur staðið óbreytt eða minnkað frá 2009 og eignaupptaka og þvinganir húsnæðissamvinnufélaga hafa náð fram, án nokkurra bóta. Nefna má sérstaklega að niðurgreiðsla á tannlæknaþjónustu fyrir aldraða og öryrkja hefur staðið óbreytt frá 1996.
Frumvarp um breytingar sem á að bæta meðferðina
Boðaðar bætur á almannatryggingalöggjöfinni, sem bíður samþykktar á Alþingi, eftir um 11 ára störf í mörgum nefndum, boða litla hækkun hjá þeim, sem minnst fá, þegar reiknaðar eru út greiðslur eftir skatt.
Í markmiðslýsingu á vef velferðarráðuneytis er sagt um endurskoðunina:
„Efni þess byggist á þeirri stefnu stjórnvalda að styðja aldraða til sjálfsbjargar og hvetja til atvinnuþátttöku, einfalda almannatryggingakerfið og bæta samspil þess við lífeyrissjóðakerfið ásamt því að auka stuðning við þann hóp aldraðra sem hefur mjög lágar eða engar tekjur sér til framfærslu aðrar en bætur almannatrygginga.“
Við athugun á frumvarpinu um breytingar á lögum nr. 100/2007, er það mat mitt að það sé ekki tækt, hvorki sem frumvarp til breytingar á lögunum, framsetningarinnar vegna eða til þess að ná fram kjarabótum fyrir þá, sem minnst hafa hjá eldri borgurum eða fyrir öryrkja.
Framsetningin, með öllum breytingunum og skýringunum í lagatexta getur ekki samrýmst kröfum dagsins í dag um þær breytingar, sem verður að gera á lögunum í heild. Enn fremur er ekki lagatækt, að setja fram tilraunaverkefni um nýtt greiðslufyrirkomulag á greiðsluþátttöku íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum. Það verður að setja fram ákveðnar breytingar með lögum, eða sleppa því.
Breytingar á þessum lögum kalla á ný heildstæð lög, en ekki þá samsuðu margs konar breytinga með tilraunaverkefni, ásamt viðbótum og úrfellingum við eldri lög, margra illskiljanlegra, sem að auki eiga ekki að taka gildi á sama tíma!
Kjaralega séð er ekki komið til móts við þá eldri borgara, sem njóta lágra lífeyrissjóðsgreiðslna og alls ekki til móts við öryrkja, sem við 67 ára aldur verða eldri borgarar og lækka þá í tekjur, sem eru undir fátæktarmörkum.
Það verður því að hækka verulega lífeyri þeirra, sem hafa tekjur frá almannatryggingum og afnema skerðingu annarra tekna við vinnu eða frá lífeyrissjóðum að kr. 250.000.
Dæmi frá lagafrumvarpinu
Þau segja að hafi einstaklingur allt að kr. 100.000.- frá lífeyrissjóði sínum, (s.s. fv. bændur, verkamenn, sjómenn og margir sjálfstætt starfandi verktakar) sé staða þeirra þannig að þeir njóta í raun nær einskis af lífeyrissjóði sínum, því viðkomandi sætir 50.000 kr. skerðingu lífeyris TR eftir skatt samkvæmt reiknivél TR. Nýjar tillögur breyta þarna litlu. Hafi viðkomandi kr. 200.000 úr lífeyrissjóði á mánuði verður skerðingin óbreytt miðað við það sem áður var, eða kr. 90.000 á mánuði eftir skatt, einnig byggt á reiknivél TR.
Mjög alvarlegt er, að samkvæmt lagafrumvarpinu á að fella niður frítekjumarkið, sem er í dag 110.000 kr. á mánuði. Skerðingin á að vera 45% af öllum tekjum nema af séreignalífeyrissparnaði og fjárhagsaðstoð frá sveitarfélögum. Þetta þýðir stóraukna skerðingu á atvinnutekjum í lagafrumvarpinu umfram kr. 50.000 í mánaðartekjur og vinnur augljóslega gegn aðalmarkmiði frumvarpsins! Í Finnlandi og Noregi er engin skerðing á lífeyrisgreiðslum vegna atvinnutekna, sem ætti að setja fram núna með sérstakri lagabreytingu, í ljósi allra þeirra skerðinga sem eldri borgarar og öryrkjar hafa mátt þola frá 2009.