Skip to main content
Frétt

Málflutningur ráðherra valdi vonbrigðum

By 10. október 2016No Comments

Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalags Íslands, segir að málflutningur Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, í tengslum við breytingar á lögum um almannatryggingar valdi sér verulegum vonbrigðum.

Í færslu á Facebook og í viðtali á RÚV um helgina segir Eygló að fyrirhugaðar breytingar á almannatryggingalögum snúi aðallega að eldri borgurum vegna þess að skort hafi samstarfsvilja hjá ÖBÍ og öryrkjar hafi því ekki fengið þriggja til fjögurra milljarða króna kerfisbreytingu sem unnið hafi verið að í nefnd um almannatryggingar.

Í viðtali í Bítinu á Bylgjunni að morgni mánudagsins 10. október sagði Ellen að forsagan væri sú að Öryrkjabandalagið hefði í 3 ár tekið ríkan þátt í nefndarstörfum um breytingar á almannatryggingalögum. Á þeim tíma hefði ÖBÍ lagt til fjölmargar tillögur að leiðum til að bæta kjör örorkulífeyrisþega, bæði í skýrslum og bréfum til ráðherra. Meirihluti nefndarinnar hafi komist að niðurstöðu þar sem ekkert tillit hafi verið tekið til tillagna ÖBÍ.

Þverpólitísk samstaða hafi hins vegar verið í nefndinni um nauðsyn þess að taka út bótaflokk sem kallast sérstök framfærsluuppbót. Örorkulífeyrisþegi, sem er með þessa sérstöku framfærsluuppbót og hefur atvinnutekjur, um 20-30 þúsund krónur, verður fyrir skerðingu á uppbótinni til samræmis við tekjurnar, krónu á móti krónu. Þess vegna sé talað um krónu-á-móti-krónu skerðingu í þessu sambandi.

Þrátt fyrir þessa samtöðu í nefndinni hefur félags- og húsnæðismálaráðherra nú lagt til að festa þessa skerðingu enn frekar í sessi. Tillögurnar um almannatryggingar sem nú liggja fyrir feli í raun í sér að hækka þessa sérstöku framfærsluuppbót þannig að nú verði skerðingartalan enn hærri. Í staðinn fyrir skerðingu um 20-30 þúsund krónur geti það farið upp í um 60 þúsund krónur.

Þetta þýði að örorkulífeyrisþegar, sem eðli málsins samkvæmt eru með litla starfsgetu, en reyndu að vinna sér inn smá tekjur yrðu fyrir því að þær væru teknar af þeim. „Þannig að ávinningur fyrir þá sem eru með sérstaka framfærsluuppbót af þessari breytingu er enginn,“ sagði Ellen. „Það er rangt að segja að örorkulífeyrisþegar muni njóta góðs af þessu.“

Ellen sagði einnig að ráðherra hefði brunnið inni með vinnuna sem unnin var í almannatrygginganefndinni. Þegar nefndin hafi verið búin að starfa í tæp 2 ár hafi Ellen átt fundi með ráðherra og bent henni á að nú væri tími til að ljúka nefndarstörfum og hún þyrfti að taka málið til sín því augljóst væri að ekki yrði einhugur í nefndinni. Ráðherra hafi kannski tekið málið til sín of seint.

Niðurstaðan sé léleg pólitísk ákvörðun þar sem ráðherra reyni af veikum mætti að spyrða þessari niðurstöðu við þátttöku Öryrkjabandalagsins í endurskoðun á almannatryggingum.

„Ég finn mig í þeirri stöðu að upplýsa almenning um það að við tókum ríkulega þátt í þessi þrjú ár og þetta er algjörlega ákvörðun ráðherra og ríkisstjórnar að fara fram með þessar hugmyndir,“ sagði Ellen. „Þær eru gagnstæðar því sem nefndin komst að niðurstöðu um.“

Ellen sagði að ef ráðherra ætti þessa 3-4 milljarða króna þá leggi hún til að ráðherra dreifi þeim afturvirkt á þá sem eru með lægsta örorkulífeyrinn. „Ekki láta þessa peninga, þessa 3-4 milljarða sem eiga að vera til, brenna inni í kerfinu þegar við erum með fólk í sárafátækt sem þarf á þessum fjármunum að halda.“