Leiðtogafundur Evrópuráðsins hefst í miðbæ Reykjavíkur á morgun og stendur fram á miðvikudag. Því taka í gildi götulokanir í kringum Hörpu klukkan 23:00 í kvöld. Næsta umhverfi hússins verður lokað fyrir allri umferð og víðara svæði fyrir alla bílaumferð.
Samkvæmt upplýsingum frá stjórnarráði Íslands verður sérútbúinn bíll frá akstursþjónustu fatlaðs fólks, Pant, verður staðsettur við Ráðhús Reykjavíkur þann tíma sem lokanir standa yfir.
„Hægt verður að bóka ferðaþjónustu til eða frá Ráðhúsinu í síma 540 2727 frá klukkan 9:00 til klukkan 22:00 þriðjudaginn 16. maí og frá klukkan 9:00 til 16:00 miðvikudaginn 17. maí.
Aksturstími er frá klukkan 7:30 til 24:00 en beðið er um tveggja tíma fyrirvara á pöntun, og að pantanir berist að kvöldi ef óskað er eftir akstri snemma morguns.
Frá Ráðhúsi Reykjavíkur mun fólk nýta sér aðra ferðamáta eftir aðstæðum. Fyrir íbúa sem eiga bílastæði innan lokaða svæðisins er boðið upp á tímabundin aðgangskort í bílakjallara Ráðhússins en þar er einnig opið fyrir almenna umferð.
Fyrir samþykkta þjónustuþega hjá ferðaþjónustunni verður skipt um bíl við Ráðhúsið fyrir lengri ferðir,“ segir á vef stjórnarráðsins.