Lögfesting Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, styrkir Erasmus+ og málefnastarf ÖBÍ voru til umræðu á vel heppnuðum formannafundi ÖBÍ réttindasamtaka í gær.
„Við verðum að brýna stjórnvöld til dáða, krefjast þess að lífeyrir verði verðbættur strax 1. maí, vegna þeirrar miklu verðbólgu sem ný er viðvarandi. Við munum krefjast þess að dregið verði úr skerðingum framfærsluuppbótar – því það er engin sanngirni að halda henni áfram í ár til viðbótar og svo munum við setja fram kröfu um skattlausa eingreiðslu til öryrkja í desember, sagði Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ réttindasamtaka, í ávarpi á fundinum.
Fulltrúar úr félagsmálaráðuneytinu voru gestir fundarins og héldu fyrirlestur um vinnu við landsáætlun í málefnum fatlaðs fólks. Farið var yfir starf 11 vinnuhópa frá í nóvember, rætt um stofnun mannréttindastofnunar og í framhaldinu lögfestingu SRFF.
Þá mættu einnig fulltrúar frá Erasmus+ á fundinn og fóru yfir verkefni og styrki til ungmenna á aldrinum 13-30. Inngilding er þema þessara verkefna og á fatlað fólk því að geta fengið styrki til náms.