Skip to main content
Frétt

List án landamæra 2018

By 9. maí 2018No Comments

List án landamæra er listahátíð með áherslu á fjölbreytileika mannlífsins. Allir sem vilja geta tekið þátt! Á hátíðinni vinnur listafólk saman að allskonar list með frábærri útkomu. Það leiðir til auðugra samfélags og aukins skilnings manna á milli. Fjöldi viðburða er haldinn á hátíðinni í ár og er greinargott yfirlit á vefnum. ÖBÍ á þátt í skipulagningu hátíðarinnar og á fulltrúa í stjórn hennar.

Hvað er list án landamæra?

Ákveðið var að efna til þessarar hátíðar á Evrópuári fatlaðra árið 2003 og hefur verið haldin árlega síðan. Hátíðin hefur breyst og þróast ár frá ári og fleiri eru að verða meðvitaðir um gildi hennar í listalífinu, bæði þátttakendur og njótendur. Hátíðin hefur stuðlað að samvinnu við listasöfn, starfandi listafólk, leikhópa og tónlistarfólk svo eitthvað sé nefnt.

Síðustu árin hefur listafólk og hópar frá Norðurlöndunum óskað eftir samstarfi og komið til Íslands og sýnt verk sín á hátíðinni. Hátíðin hefur meðal annars fengið stuðning frá Norrænu ráðherranefndinni og Norræna menningarsjóðnum ásamt fleiri norrænum sjóðum í tengslum við skandinavísk verkefni. List án landamæra hlaut Múrbrjót Þroskahjálpar árið 2009 og var tilnefnd til Hvatningaverðlauna ÖBÍ árið 2011. Árið 2012 fékk List án landamæra Mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar.

Fyrir utan beina listviðburði hefur List án landamæra stuðlað að umræðu m.a. í samvinnu við Háskóla Íslands, Þjóðminjasafnið og Norræna húsið um ímynd fatlaðra í listum og list fatlaðra. Hátíðin er haldin um allt land og sífellt bætast fleiri bæjarfélög í hópinn. Með auknum styrk og stuðningi við hátíðina munu enn fleiri bæjarfélög bætast við og fatlað fólk um land allt mun fá tækifæri til þess að koma list sinni á framfæri á sem aðgengilegastan hátt.

Ávinningur af listahátíðinni List án landamæra

  • List án landamæra leggur áherslu á jákvæða birtingarmynd fólks með fötlun sem fullgildra þátttakenda í samfélaginu.

  • Listafólk og þátttakendur í hátíðinni eru fyrirmyndir en áhrifamáttur þeirra er mikill og mikilvægt að þær séu „allskonar’’ og spegli samfélagið í sinni fjölbreyttustu mynd.

  • List án landamæra eykur skapandi virkni og hvetur til þátttöku í menningarlífinu.

  • Á hátíðinni skarast ósýnileg landamæri.

  • List án landamæra skapar tækifæri.

  • List án landamæra greiðir leiðir og tengir fólk saman.

  • List án landamæra stuðlar að aukinni þekkingu sem leiðir af sér minni fordóma.

  • List án landamæra eykur jákvæða umfjöllun um fólk með fötlun í fjölmiðlum.

  • List án landamæra skapar vettvang milli fatlaðs og ófatlaðs listafólks og eykur þannig fjölbreytileika mannlífsins á landinu öllu.

Af hverju List án landamæra?

Með því að skapa vettvang skapar maður tækifæri. Leiðir opnast, jafnvel inn á nýjar brautir og með því að kynna saman hópa og einstaklinga opnast alltaf fleiri og fleiri dyr og tækifæri. List án landamæra er þannig hátíð þess mögulega, hátíð margbreytni og tækifæra fyrir alla sama hvar á landinu þeir eru staddir.

Markmið

Markmið hátíðarinnar er að auka gæði, gleði, aðgengi, fjölbreyttni og jafnrétti í menningarlífinu. Við viljum koma list fólks með fötlun á framfæri og koma á samstarfi á milli fatlaðs og ófatlaðs listafólks. Sýnileiki ólíkra einstaklinga er mikilvægur, bæði í samfélaginu og í samfélagsumræðunni. Sýnileiki hefur bein áhrif á jafnrétti á öllum sviðum.

ÖBÍ tekur virkan þátt

Hátíðin er vettvangur og þak yfir viðburði og hefur það að markmiði að vera síbreytileg og lifandi. Hátíðin er ekki stofnun heldur grasrótarsamtök. Samstarfsaðilar í stjórn hátíðarinnar eru: Fjölmennt, Átak, Hitt húsið, Landssamtökin Þroskahjálp, Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, Öryrkjabandalag Íslands og Bandalag íslenskra listamanna. Fjölmargir koma að hátíðinni; stofnanir, samtök, félög, listahópar ýmiskonar og einstaklingar.

Fulltrúar þessara félaga í stjórn hátíðarinnar eru: Margrét Norðdahl fyrir hönd Þroskahjálpar, Helga Gísladóttir forstöðukona hjá Fjölmennt, Ágústa Erla Þorvaldsdóttir fyrir hönd Átaks – félagi fólks með þroskahömlun, Guðríður Ólafs og Ólafíudóttir frá Öryrkjabandalagi Íslands, Ásta Sóley Haraldsdóttir verkefnastjóri hjá Ráðgjöf og stuðningi hjá Hinu Húsinu og Edda Björgvinsdóttir fulltrúi Bandalags íslenskra listamanna.

Ragnheiður Maísól Sturludóttir er framkvæmdastýra hátíðarinnar.

Friðrik Sigurðsson er verndari og einn stofnandi hátíðarinnar.