Ingveldur Jónsdóttir tók í dag við fyrsta leiðbeiningabæklingnum um notkun stæðiskorta fyrir hreyfihamlað fólk hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Leiðbeiningarnar voru gefnar út í dag og verða afhentar öllum þeim sem sækja ný stæðiskort til sýslumanns.
„Það er afskaplega mikilvægt að þeir sem hafa P-merki séu meðvitaðir hvaða réttindi þeir hafa en líka hvað ber að varast þegar lagt er er stæði sem merkt er fyrir fatlaða. Má þar nefna að leggja ekki 2 bílum saman í eitt stórt bílastæði. Fólk með fötlun þarf að hafa pláss til að taka út sín hjálpartæki og þess vegna eiga stæði fyrir fatlað að vera extra breið,“ segir Bergur Þorri Benjamínsson, formaður aðgengismálahóps ÖBÍ réttindasamtaka, um hinar nýju leiðbeiningar.
„Eins að greiða leið annara með því að leggja ekki í stæði fyrir fatlaða nema að eiga erindi út úr bílnum, alls ekki að leggja í stæði og hanga svo í bílnum,“ segir Bergur að auki.
Þetta er í fyrsta sinn sem gefnar eru út sérstakar leiðbeiningar um notkun stæðiskorta en vöntun hefur verið á slíkum upplýsingum. Þótt ákveðin réttindi fylgi kortunum fylgja einnig skyldur og það er mikilvægt að bæði stæðiskorthafar og almenningur allur sýni tillitsemi.
ÖBÍ réttindasamtök gefa þessar nýju leiðbeiningar út og verður þeim dreift með nýjum og endurnýjuðum stæðiskortum hjá Sýslumannsembættinu. Hægt er að hlusta á Notkun stæðiskorta fyrir hreyfihamlað fólk á obi.is
Til þess að mega leggja í P-merkt bílastæði þarf maður að maður að sýna fram á hreyfihömlun skv. læknisvottorði. Bílastæði hreyfihamlaðra þurfa að uppfylla ákveðna stærð til að nýtast fólki sem notar hjálpartæki og vera stutt frá inngangi bygginga. Bílastæði hreyfihamlaðra eru gjaldfrjáls handhöfum stæðiskorthafa, rétt eins og önnur bílastæði.