Skip to main content
Frétt

Lagt til að örorkulífeyrir hækki um 3.6% um áramótin.

By 1. október 2020No Comments
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, hefur nú kynnt síðasta fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Hafi einhver átt von á að í því frumvarpi leyndust efndir yfirlýsinga Katrínar sem stjórnarandstæðings, frá því fyrir um 4 árum, verður viðkomandi fyrir vonbrigðum. Hækkun örorkulífeyris verður 3,6% um næstu áramót. Fátækt fólk þarf því enn að bíða.

Forsendur fjárlagafrumvarpsins til hækkunar örorkulífeyris eru sem fyrr segir 3.6% frá og með 1. janúar 2021 að telja. Hér er hækkun örorkulífeyris samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. „Hækkunin byggist á mati á áætluðum meðaltalstaxtahækkunum á vinnumarkaðinum í heild fyrir árið 2021“.  Þá segir í frumvarpinu að þessar hækkanir séu í samræmi við 69. grein laga um almannatryggingar, þar sem kveðið er á um að bætur skuli hækka árlega og taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.

Verðbólguspá þjóðhagsspár Hagstofu Íslands, sem gefin var út nú fyrsta október,  fyrir árið 2021 er 2,7% og samkvæmt spánni stefnir í 2,8% verðbólgu árið 2020.

Það er reyndar aðeins misvísandi þar sem samkvæmt fréttum er nú talað um að verðbólga, sem er sögð vera að láta á sér kræla, sé nú mæld á 12 mánaða tímabili 3,5%.

Eftir þessa hækkun verður framfærsluviðmið almannatrygginga 265.044 krónur fyrir skatt, sem, að teknu tilliti til þeirra skattkerfisbreytinga sem koma til framkvæmda um áramótin, mun skila rétt tæpum 233 þúsund krónum í vasa þeirra sem lifa af örorkulífeyri.