Félagsmálaráðherra hefur breytt reglugerð um heimilisuppbót þannig að nú er heimilt að greiða heimilisuppbót, þó á heimilinu sé barn öryrkja, eldra en 18 ára í námi, þó námið sé ekki 100% nám. Fyrir breytingu var krafa um fullt nám.
Viðeigandi grein reglugerðarinnar hljómar svo eftir breytingu:
„Ef heimilismaður er á aldrinum 18-25 ára og í námi eða starfsþjálfun skulu aðrir heimilismenn þó ekki teljast hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum við hann.“
Breytingin tók gildi 1. janúar.
Gerðar voru breytingar á reglugerðinni vorið 2021 með að markmið að stuðla að jafnrétti til náms. Eftir breytinguna gat lífeyrisþegi haldið heimilisuppbót þrátt fyrir að hann deildi heimili með ungmenni í fullu námi undir 26 ára aldri. Áður féll heimilisuppbót niður ef lífeyrisþegi deildi heimili með ungmenni eldri en 20 ára, þó ungmennið væri í námi.
Í frétt á heimasíðu stjórnaráðsins er haft eftir Guðmundi Inga Guðbrandssyni félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra að:
„Með þessari breytingu er fötluðum foreldrum gert kleift að styðja börn sín til náms með því að leyfa þeim að búa áfram í foreldrahúsum meðan á námi stendur, hvort sem þau eru í fullu námi eða hlutanámi, en nemendur hafa ekki alltaf tök á að stunda fullt nám. Hér stígum við því skref í átt að auknum jöfnuði til náms óháð bakgrunni,“
Öryrkjabandalagið hefur þrýst mjög á þessa breytingu, og við teljum þetta góðan áfanga svo öryrkjar, sem aðrir landsmenn, hafi tök á að styðja börn sín til náms, til jafns við aðra, en sé ekki refsað fjárhagslega fyrir að börn þeirra búi heima eftir að 18 ára aldri er náð, og enn í skóla.
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins segist mjög ánægð að sjá þessa þörfu og réttlátu breytingu á reglugerðinni.
„Ég veit að hún mun létta mörgum róðurinn, bæði ungmennum og foreldrum. Það er mjög ánægjulegt að sjá slíkt upphaf hjá nýjum ráðherra og vekur mér bjartsýni um að samstarf okkar um þau mikilvægu mál sem snúa að fötluðu fólki, verði gott.“