Töluverð umræða hefur skapast meðal almennings um óvænta og ríflega desemberuppbót Alþingismanna og embættismanna ríkisins sem áður heyrðu undir Kjararáð. Sú uppbót nemur ríflega 181 þúsund krónum.
Í frétt RÚV um málið í gær var svokölluð persónuuppbót hálaunafólks hjá hinu opinbera borin saman við desember- og orlofsuppbót örorkulífeyrisþega. Desemberuppbótin er greidd fyrir jól hjá örorkulífeyrisþegum, rétt eins og persónuuppbót embættismanna í desember. Orlofsuppbót örorkulífeyrisþega er greidd út á sumrin.
Ekki er ástæða til að efast um að RÚV birti réttar upplýsingar eins og þær komu fram frá Tryggingastofnun ríkisins. Spyrja má hins vegar hvort málið sé sett fram í eðlilegu samhengi og hvort verið sé að bera saman sambærilega hluti. Svarið er neikvætt í báðum tilvikum.
Að vera eða ekki …
Fram kemur í Fréttablaðinu í dag að í reglum um þennan jólabónus embættismanna sé hvergi tekið fram að um annað en desemberuppbót sé að ræða:
Gott og vel. Í því samhengi má spyrja hvers vegna orlofsuppbót þessa fólks er ekki greidd út að sumri til og heitir ekki bara desemberuppbót sem greidd er í desember. En lítum annað.
Ótrúlegur munur
Samkvæmt upplýsingum á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins eru meðalheildarlaun þeirra embættismanna sem heyrðu undir Kjararáð um 1.200.000 kr. á mánuði. Það þætti flestum all ríflegt. Það gera um 14,4 milljónir króna í árslaun. Spyrja má hvort „uppbætur“ þurfi á slík laun?
Til samanburðar má benda á að öryrkja eru skammtaðar innan við 239 þúsund krónur á mánuði, fyrir skatt. Það eru vel innan við 2,9 milljónir ári. Á þessum hópum munar því um 11,5 milljónum króna á ári, ellefu og hálfri milljón króna á hverju ári. Svo mætti velta því fyrir sér hvað þetta gerir á einni meðalævi, en þá fer að muna hundruðum milljóna á Jóni og Gunnu annars vegar og séra Jóni og Gunnu hins vegar. Og það munar líka ótrúlega miklu á Jóla- og séra Jólauppbót.
Við skulum hafa í huga að sumir lífeyrisþegar fá enga desemberuppbót. Aðrir fá minna en hámarksdesemberuppbót, sem nemur um 43 þúsund krónum. Sumir geta klórað sig upp í eitthvað aðeins meira.
En Jólabónus embættismannanna er semsagt meira en fjórum sinnum hærri en það sem hinum almenna öryrkja og fjölskyldu hans er boðið. Þetta er slæmt, en því miður rétt. Og umræðan þarf að byggja á réttum forsendum.