Skip to main content
Frétt

Sjúkraþjálfun borgar sig margfalt

By 26. júní 2018No Comments

„Sjúkraþjálfun er sjálfsagt ein besta fjárfestingin sem við setjum í heilbrigðiskerfið,“ segir Emil Thoroddsen, formaður Málefnahóps ÖBÍ um heilbrigðismál. „Þetta er fjárfesting sem skilar sér margfalt út í samfélagið,“ bætir hann við í samtali við vef ÖBÍ.

Fram kemur í nýrri skýrslu Sjúkratrygginga Íslands um reynsluna af nýju greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðisþjónustu, að þeim fjölgar mjög sem sækja sjúkraþjálfun.

„Þegar skoðaðar eru breytingar á útgjöldum í stærstu málaflokkunum sem heyra undir kerfið, og eru vegna samningsbundinnar þjónustu við SÍ, sést að útgjöld SÍ vegna sjúkraþjálfunar hafa aukist um 83%. Heildarútgjöld vegna sjúkraþjálfunar hafa aukist um 30%. Komum í sjúkraþjálfun hefur fjölgað um 17%.

Aukning í útgjöldum SÍ vegna sjúkraþjálfunar skýrist að miklu leyti með aukinni greiðsluþátttöku í þjálfun hjá einstaklingum á aldrinum 18 – 67 ára (almennir) en hjá þeim hópi var lítil greiðsluþátttaka SÍ í eldra kerfi. Fjöldi einstaklinga sem sótti sjúkraþjálfun í þessum hópi jókst um 14% samanborið við 2016 og komum fjölgaði um 36%. Heildarútgjöld þessa hóps jukust um 50% milli ára. Hlutfall SÍ af heildarútgjöldum fór úr 16% í 70%. Minni breytingar urðu á útgjöldum og komum hjá hópum öryrkja, aldraðra og barna en þar fjölgaði komum um 5 – 9% og útgjöld SÍ hækkuðu um rúm 30%,“ segir í samantekt skýrslunnar.

Emil Thoroddsen bendir á að Öryrkjabandalag Íslands hafi hvatt til þess að fólk nýti sér sjúkraþjálfun í meira mæli og að stjórnvöld nýti þetta mikilvæga úrræði. Það sé gleðilegt að sjá að mikil aukning hafi orðið á sjúkraþjálfun hjá fólki á aldrinum 18-67. Þetta sé mikilvægt fyrir fólk til að ná heilsu og styrk og einnig mikilvæg forvörn.

Betur má ef duga skal

Nýja greiðsluþátttökukerfið er hins vegar ekki gallalaust. Langt í frá, eins og til dæmis hefur verið bent á í umfjöllun Stundarinnar. Þannig eru þök á kostnaði öryrkja enn of há. Jafnframt var viðbúið að kostnaður öryrkja myndi aukast í nýja kerfinu. Þetta þarf að laga. Nánari umfjöllun um reynsluna af kerfinu verður birt hér á vefnum innan tíðar. Benda má á að Málefnahópur ÖBÍ um heilbrigðismál hélt á dögunum málþingið Allt í kerfi? um reynsluna af nýja greiðsluþátttökukerfinu, þar sem leidd voru fram fjölbreytt sjónarmið, þar á meðal notenda þjónustunnar og verkalýðshreyfingarinnar.