Forseti Íslands ásamt ráðherrum, ráðamönnum helstu menntastofna er hafa hag íslenska táknmálsins á herðum sínum, Vigdísar Finnbogadóttur fyrrum forseta og verndara Norræna táknmálsins auk Formanns Félags heyrnarlausra undirrituðu sáttmálann í tilefni af Degi íslenska táknmálsins og 60 ára afmæli Félags heyrnarlausra sem fagnaði afmæli sínu sama dag.
Í tilkynningu frá menntamálaráðuneytinu segir Lilja Alfreðsdóttir: „Það er mér mikil ánægja að undirrita þennan sáttmála á degi íslenska táknmálsins og þegar Félag heyrnarlausra fagnar 60 ára afmæli sínu. Íslenskt táknmál er fyrsta mál fjölda Íslendinga og við þurfum að að efla rannsóknir, kennslu og námsefnisgerð er því tengist. Við viljum tryggja að allir hafi jöfn tækifæri til menntunar, efling íslenska táknmálsins er liður í því,“
Alheimssamtök heyrnarlausra gáfu út sáttmála um rétt allra til táknmáls árið 2019. Þar er farið yfir rétt til táknmáls, mikilvægi táknmálsumhverfis og að þeir sem reiða sig á táknmál hafi jöfn tækifæri á við aðra. Félag heyrnarlausra er mjög stolt af því að Ísland er fyrsta landið til að fá þennan sáttmála undirritaðan af þjóðhöfðingja landsins, ráðamönnum og öðrum hagsmunaaðilum. Lög um íslenska tungu og íslenskt táknmál voru samþykkt á Alþingi 27. maí 2011, en talið er að um 300 einstaklingar reiði sig á íslenskt táknmál til tjáningar og samskipta Málhafar þessa tungumáls eru því fáir og mikilvægt er að ríki og stjórnvöld taki höndum saman og styðji og efli tungumálið svo það nái að lifa og berast áfram til næstu kynslóða. Í dag eru örfáir opinberir staðir þar sem íslenska táknmálið fær að njóta sín sem fyrsta mál og má þar nefna Félag heyrnarlausra, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, Háskóla Íslands, leikskólann Sólborg, Hlíðaskóla og Málnefnd um íslenskt táknmál.