Skip to main content
Frétt

„Hversu lengi á svona vísvitandi fjárhagslegt ofbeldi að viðgangast?“

By 6. nóvember 2018No Comments

„Hversu lengi á svona vísvitandi fjárhagslegt ofbeldi að viðgangast?“ spurði Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins á Alþingi í gær. Þar spurði hann félags- og jafnréttismálaráðherra um hina alræmdu krónu-á-móti-krónu skerðingu. Ráðherra sagði að til stæði að verja 4 milljörðum króna frá næstu áramótum til að „draga úr skerðingum í kerfinu“. Þess sér ekki stað í frumvarpi til fjárlaga næsta árs.

Augljóst réttlætismál

Afnám krónu-á-móti-krónu skerðingarinnar er mikið réttlætismál, enda kemur hún í veg fyrir að fólk fái notið aukatekna af nokkurru tagi, hvort sem það eru atvinnutekjur, lífeyristekjur eða aðrar tekjur. Öryrkjabandalag Íslands hefur árum saman barist fyrir afnámi þessarar ósanngjörnu skerðingar. Nú í haust samþykkti stjórn ÖBÍ að ganga til aðgerða gagnvart ríkinu. Skorað var á ríkisstjórn að afnema skerðinguna og endurgreiða öryrkjum það sem af þeim hefur verið tekið. Enda er augljóst að um klára mismunun er að ræða. Fyrir þinginu liggur nú frumvarp um afnám þessarar skerðingar. Ljóst er að það nýtur almenns stuðnings og þvert yfir flokkslínur.
Þessi mál voru rædd í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi á mánudag.

Einstæð móðir skert að fullu

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, spurði Ásmund Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, á Alþingi:

„Undanfarið hef ég fengið fullt af ábendingum frá fólki um skerðingar. Nýjasta dæmið er einstæð móðir sem gerði þá vitleysu að taka út séreignarsparnað til að borga niður skuldir, til að vera betur stödd, til að koma börnum sínum í skóla. En hvað skeður þá? Jú, séreignarsparnaðurinn er tekinn króna á móti krónu og af því að litið er á hann sem tekjur er hann líka notaður til að skerða aðrar bætur. Ég spyr: Hversu lengi á svona vísvitandi fjárhagslegt ofbeldi að viðgangast?“ sagði Guðmundur Ingi og hélt áfram:

„Hvers vegna í ósköpunum er verið að leyfa öryrkjum að fá séreignarsparnaðinn ef nota á hann til að stela af þeim aftur krónu á móti krónu? Við hljótum að geta samþykkt hér og nú að fara að hætta svona ótrúlegu ofbeldi og það gegn fólki sem er svo veikt að það getur ekki varið sig. Því að þetta er gert ári seinna. Það áttar sig ekki á að það er að tapa stórfé, fé sem það þarf fyrir mat og lyfjum,“ bætti hann við og spurði ráðherrann hvenær ætti að afnema þessa skerðingu.

Ráðherra lofar breytingum

„Það má ráðgera að 1. janúar verði breytingar þar sem 4 milljörðum verður varið í þá veruna. Hvenær? Já, það eru breytingar í vændum. 1. janúar munum við sjá breytingar,“ sagði Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra og bætti við:

„Ríkisstjórnin ætlar sér að afnema krónu á móti krónu skerðingar. Ráðgert er að á næsta ári samkvæmt fjárlagafrumvarpi sem nú er í vinnslu þingsins séu áætlaðir í það 4 milljarðar kr., frá 1. janúar. Ég hef sagt það í þessum stól og opinberlega líka að þeir fjármunir verði fyrst og fremst notaðir til þess að draga úr skerðingum í kerfinu þannig að það komi sér sem best fyrir þá sem verst standa í þessum hópi. Nú nálgast 1. janúar. Verði fjárlagafrumvarpið samþykkt með 4 milljörðum inni tekur við að útfæra hvernig við nýtum þá fjármuni til þess að þeir komi sér sem best fyrir þennan hóp. Þar verður fyrst og síðast horft til skerðinga og annarra atriða sem hagsmunasamtök, Öryrkjabandalag Íslands og Þroskahjálp, leggja áherslu á. Það hef ég boðað og unnið verður út frá því.“

Finnst ekki í fjárlagafrumvarpi

Benda má á að í frumvarpi til fjárlaga næsta árs, sem nú er til umfjöllunar á Alþingi, kemur ekki fram hvenær eigi að afnema þessar 100% skerðingar. Þar segir að áætlað sé að bæta við fjármagni undir liðinn „örorka og málefni fatlaðs fólks á árinu 2019“ að fjárhæð 4.ma. króna vegna kerfisbreytingar á almannatryggingum til að bæta kjör öryrkja. Þá hefur komið fram í máli ráðherrans áður að það „kosti“ á annan tug milljarða að afnema þessa skerðingu að fullu. Því sér hver maður að fjórir milljarðar duga skammt.

„Tími til að skila fénu“

Guðmundur Ingi hefur áður bent á að með krónu-á-móti-krónu skerðingunni hafi á þriðja tug milljarða króna verið hafður af örorkulífeyrisþegum á síðustu tveimur árum. Hann ítrekaði spurningu sína til ráðherra og bað hann að skýra svar sitt.

„Þegar sagt er að það eigi að draga bara pínulítið úr þessu með 4 milljörðum vil ég sjá það strax 1. janúar á næsta ári — og við erum alveg tilbúin til þess, ég er viss um að þingið er tilbúið til þess — að það verði settir í þetta 12 milljarðar eða það sem þarf vegna þess að það er búið að taka af öryrkjum nú þegar 25 milljarða í þessu samhengi. Það er kominn tími til að skila fénu.“

Ráðherra boðar reglugerð

Ásmundur Einar svaraði:

„Í gangi er vinna við að endurskoða almannatryggingakerfið þegar kemur að örorkulífeyrisþegum. Þar undir eru m.a. umræður um hvernig draga skuli úr skerðingum og með hvaða hætti. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár, sem nú er í vinnslu þingsins í fjárlaganefnd og ég held að sé ráðgert að ræða við 2. umr. í næstu viku, er tillaga um að 4 nýir milljarðar skuli nýttir til að bæta stöðu þessa hóps. Þeir verða m.a. notaðir til að draga úr skerðingum.“

Forysta ÖBÍ hefur margsinnis bent á, og nú hafa fjölmenn stéttarfélög tekið undir, síðast Alþýðusamband Íslands, að endurskoðun almannatryggingakerfisins, hangir á engan hátt saman við afnám krónu-á-móti-krónu skerðinguna. Samt sem áður virðast stjórnvöld vilja tengja þessa tvo óskyldu hluti saman. 
Ráðherrann bætti við í svari sínu á Alþingi á mánudag, að um áramótin skýrist hvernig þessum fjórum milljörðum króna sem hann lofar til að draga úr skerðingum verði varið.

„Niðurstaða þingsins varðandi fjárlög hlýtur að skýrast síðar í þessum mánuði eða næsta mánuði og fyrir 1. janúar mun félagsmálaráðherra setja reglugerð sem miðar að því að ákveða hvernig þessum fjármunum skuli varið. Í þeirri vinnu verður horft til endurskoðunarvinnu á almannatryggingakerfinu sem stendur yfir, og samtals við Öryrkjabandalag Íslands og Þroskahjálp,“ sagði Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra.

Myndband af umræðunni í heild