ÖBÍ réttindasamtök fagna því að með nýgerðum kjarasamningum breiðfylkingar stéttarfélaga innan ASÍ og Samtaka atvinnulífsins hafi náðst fram umbætur sem gagnast örorkulífeyristökum. Samningarnir voru undirritaðir í síðustu viku og ná ýmis atriði þeirra til samfélagsins alls, þar með talið lífeyristaka.
Íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til þess að koma á verulegum kjarabótum fyrir barnafólk, leigjendur og skuldsetta. Þetta er í formi aukinna skattfrjálsra bóta úr hinum svokölluðu millifærslukerfum hins opinbera, auk gjaldfrjálsra skólamáltíða barna og takmörkunar á gjaldskrárhækkunum ríkis og sveitarfélaga.
Helstu breytingar
Skólamáltíðir barna í grunnskólum verða gerðar gjaldfrjálsar frá upphafi næsta skólaárs. Fyrir einstakling með tvö grunnskólabörn er þetta ígildi um 40 þúsund króna launahækkunar.
Húsnæðisbætur til leigjenda hækka um 25% að viðbættri sérstakri hækkun fyrir fjölskyldur með þrjú börn eða fleiri. Þessi breyting tekur gildi 1. júní á þessu ári.
Þá hækka barnabætur um 6% og dregið verður á móti úr skerðingum úr 5% og niður í 4%.
Vaxtastuðningur í formi eingreiðslu verður greiddur á árinu 2024. Upphæð vaxtastuðningsins verður allt að 150 þúsund krónur fyrir barnlausan einstakling, 200 þúsund fyrir einhleyp foreldri og 250 þúsund fyrir hjón. Upphæðina má nýta til lækkunar á höfuðstóli láns eða mánaðarlegra afborgana yfir visst tímabil, eftir vali hvers og eins.
Gjaldskrár sveitarfélaga og ríkis munu, með nokkrum undantekningum, lækka í tilvikum þar sem liðir hækkuðu umfram 3,5% um síðustu áramót, og ríki og sveitarfélög munu halda öllum hækkunum innan við 2,5% á árinu 2025.
Böndum verður komið á leigumarkaðinn með nýju lagafrumvarpi sem til stendur að samþykkja á vorþingi 2024. Það felur í sér hömlun á hækkunum leiguverðs og styrkta stöðu leigjenda í fleiri atriðum.
Forsendur
Vert er að taka fram að nýju kjarasamningarnir eru byggðir á þeirri forsendu að verðbólga, og þar með vextir, náist hratt niður. Ef það gengur eftir yrði það ein mikilvægasta kjarabót samninganna fyrir landsmenn alla.
Ef verðbólga hjaðnar ekki nógu hratt og fer ekki niður fyrir tiltekið mark á þeim dagsetningum sem samið var um, og ekki næst samkomulag við SA um hvernig það skuli bætt, verður heimilt að segja samningunum upp á tveimur tilteknum tímapunktum á samningstímanum.