Öryrkjabandalag Íslands hefur í mörg ár barist hart fyrir því að óréttlátar krónu-á-móti-krónu skerðingar verði afnumdar. Gert er ráð fyrir að tekið verði á málinu í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, en þetta þarf að gerast strax! Og það er ekkert mál og mun hafa ótrúlega jákvæð áhrif á samfélagið allt. Það þarf bara að ganga í málið! Það er ekki lengur hægt að bíða.
Fyrir Alþingi liggur frumvarp um afnám skerðinganna. Það er hægt að afnema krónu-á-móti-krónu skerðingar án fyrirvara um nokkur önnur mál. Það er verið að halda fólki niðri, föstu í fátæktargildru, með kerfisbundnu ofbeldi. Því verður að ljúka nú þegar. Það sjá það allir að það gengur ekki að einum þjóðfélagshópi sé refsað fyrir sjálfsbjargarviðleitni. Þetta eru aðgerðir sem ekki þola bið!
Þingmenn úr öllum flokkum hafa tekið undir þessa kröfu Öryrkjabandalags Íslands. Enn bíðum við þess samt að orðum fylgi athafnir.
Hér á síðunni má sjá ummæli ýmissa þingmanna. Ekki hika við að minna þinn þingmann á hástemmdar yfirlýsingar, fögur orð og heitstrengingar. Fögur orð mega sín lítils ef þeim fylgja ekki athafnir!
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs
„Að sjálfsögðu þarf að fara svo í kerfisbreytingar og skoða sérstaklega því að hv. þingmaður nefndi hér krónu á móti krónu skerðinguna sem ég held að allir hér inni í þessum sal séu sammála um að þurfi að endurskoða. Þetta þurfum við að gera hratt.“
– Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og þingmaður Vinstri grænna
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins
„Við erum flokkur sem vill hjálpa fólki til sjálfshjálpar og í því fellst að fólk má ekki festast í fátæktrargildru.“
– Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins
„Eitt barn sem líður skort er einu barni of mikið.“
– Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra og þingmaður Framsóknarflokks
Þorsteinn Víglundsson, varaformaður Viðreisnar
„Núverandi kerfi er algjörlega gjaldþrota þegar kemur að örorkulífeyrir út af krónu á móti krónu skerðingunni.“
– Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar
Lilja Rafney Magnúsdóttir, Vinstri græn
„Þess vegna verður þessi ríkisstjórn, sem ég er stuðningsmaður að, að sýna í verki, þótt ekki hafi náðst í þessum fjárlögum að gera nægilega mikið fyrir fátækasta fólkið í landinu, á þessu kjörtímabili að hún setji fátækt fólk á Íslandi í forgang.“
– Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna
Óli Björn Kárason, Sjálfstæðisflokkur
„Það að hafa enn þá krónu á móti krónu skerðingu þegar kemur að öryrkjum er okkur til skammar. Við skulum taka okkur á.“
– Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokks