Húsfyllir var á seinni degi Námsstefnu ÖBÍ sem fór fram í Háteig á Grand hóteli í Reykjavík í gær. Fulltrúar í starfi ÖBÍ réttindasamtaka mættu í tugatali og hlýddu á fjölbreytta fyrirlestra.
Gestafyrirlesarar voru þau Guðrún Snorradóttir, PCC stjórnendamarkþjálfi, sem fjallaði um jákvæða sálfræði í teymisvinnu og Jón Halldórsson, ACC markþjálfi og eigandi KVAN, sem ræddi um menningu á vinnustöðum og í hópavinnu allri.
Að auki fluttu formenn og starfsmenn málefnahópa ÖBÍ erindi um áherslur í sínum málaflokkum og Alma Ýr Ingólfsdóttir formaður ávarpaði viðstadda.
Fyrri dagur námsstefnunnar var haldinn í Sigtúni miðvikudaginn 25. október og snerist einna helst um starfsemi bandalagsins. Farið var yfir Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, siðareglur, málefnastarfið og upplýsingamiðlun.
Námsstefnan er mikilvægur liður í fræðslustefnu ÖBÍ réttindasamtaka. Í fræðslustefnunni, sem sett var haustið 2021, segir m.a.: „ÖBÍ stendur fyrir fræðslu og þjálfun fyrir aðildarfélögin, einnig fyrir eigin stjórn, nefndir og starfsfólk. Jafnframt vinnur ÖBÍ með háskóla- og rannsóknasamfélaginu að því að skapa og auka þekkingu á réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks.“
Markmiðið með stefnunni er að styrkja starf ÖBÍ og styðja við aðildarfélögin og mikilvæga starfsemi þeirra í þágu fatlaðs fólks.