Tóra við Keldu, formaður MEGD og Bárður Atlason Ísheim framkvæmdastjóri, hittu Þuríði Hörpu Sigurðardóttur, formann ÖBÍ, og Ölmu Ýr Ingólfsdóttur, mannnréttindalögfræðing til að fræðast um uppbyggingu og starfsemi ÖBÍ.
Á fundinum var rædd starfsemi ÖBÍ, hlutverk og markmið, starfsemi málefnahópa bandalagsins og fyrirtækja tengdum ÖBÍ.
Þeim lék forvitni á að fræðast um daglega starfsemi, þar sem samskipti við stjórnvöld, ríki og sveitarfélög og þingmenn, voru ofarlega á baugi. Einnig hvaða leiðir ÖBÍ væri að nýta í hagsmunabaráttunni til að ná árangri.
Samningur Sameinuðu þjóðanna var vitaskuld talsvert ræddur í tengslum við stöðu mannréttinda fatlaðs fólks á Íslandi, og mikilvægi þess að hann verði lögfestur.
Samráð stjórnvalda við samtök eins og ÖBÍ er mikilvægt og stór liður í þeirri baráttu sem mannréttindabarátta fatlaðs fólks er. Þuríður fór yfir nýlega fundarherferð ÖBÍ í 20 sveitarfélögum hringinn í kringum landið, og hversu áberandi var hve þörfin á slíkum heimsóknum var mikil. Á þessari yfirreið um landið kom berlega í ljós hve mikilvægt er að funda reglulega með sveitarstjórnarfólki, sem vélar um þá nærþjónustu sem fatlað fólk nýtur, eða á að njóta.
Starfsemi mannréttindaskrifstofu var rædd, og mikilvægi réttindagæslumanna, en þau Tóra og Bárður höfðu einmitt átt fund með Réttindagæslunni, og halda héðan til Danmerkur á fund dönsku systursamtaka okkar.
Hér má finna heimasíðu MEGD.