ÖBÍ réttindasamtök óska nýkjörnum þingmönnum innilega til hamingju með kjörið og vilja nýta tækifærið til þess að minna á að brýn þörf er á umbótum á ýmsum sviðum samfélagsins.
Fatlað fólk stendur höllum fæti á ýmsum sviðum. Upphaf nýs kjörtímabils og myndun nýrrar ríkisstjórnar er upplagt tækifæri til þess að ráðast í raunverulegar umbætur.
Áherslur ÖBÍ réttindasamtaka
Fyrir kosningarnar birti ÖBÍ tíu áherslur og kynnti þær fyrir frambjóðendum sem tóku þátt á opnum fundi um málefni fatlaðs fólks. Áherslurnar varða meðal annars bætt kjör, aðgengilegan vinnumarkað, réttindi barna og öruggt húsnæði.
Sjá má allar áherslurnar með því að smella á hlekkinn hér að neðan. Við hvetjum alla þingmenn, nýja sem endurkjörna, að gera einmitt það.
Lögfesting, kjör og biðlistar
Viðræður um myndun ríkisstjórnar Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Flokks fólksins eru farnar af stað. Ýmislegt þarf að ræða í viðræðum sem þessum.
ÖBÍ réttindasamtök sendu öllum framboðum þrjár spurningar sem varða hagi fatlaðs fólks í aðdraganda kosninganna. Greina má töluverðan samhljóm í svörum flokkanna þriggja sem ræða nú myndun ríkisstjórnar.
Allir flokkarnir sögðust afdráttarlaust hlynntir því að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Það er gleðiefni og bindur ÖBÍ vonir við að sjá slík áform í stjórnarsáttmála, ef flokkarnir ná saman um stjórnarmyndun.
Þá sögðust allir flokkarnir vilja tryggja betri lífskjör fatlaðs fólks en nefndu mismunandi leiðir til úrbóta. Mikilvægt er að flokkarnir komi sér saman um raunverulegar úrbætur, enda er vaxandi tekjuvandi fatlaðs fólks gríðarlegt vandamál.
Flokkarnir þrír sögðust jafnframt ætla að eyða biðlistum barna eftir greiningum og meðferð eða stytta þá verulega og vonast ÖBÍ réttindasamtök til að sjá skýra útfærslu á því hvernig það skuli gert í stjórnarsáttmála.
Lesa má öll svörin í heild með því að smella á hlekkinn hér að neðan.
Alþingiskosningar: Hvað vilja flokkarnir gera fyrir fatlað fólk?