Ræða Ingu Bjarkar Margrétar Bjarnadóttur á mótmælum 1. desember 2018.
Við erum saman komin hér í dag vegna þess að kerfislægt hatur hefur opinberast okkur. Hatur gegn jaðarsettum hópum — konum sem dirfast að láta til sín taka á Alþingi, gegn fötluðu fólki, gegn hinsegin fólki, gegn karlmönnum sem falla ekki undir staðalímyndir um hvernig karlar eigi að vera og haga sér. Þó ummælin séu hvert fyrir sig ógeðsleg eru þau vitnisburður um samfélagsmein. Að fólki leyfist að hata okkur í yfirskini þess að um grín sé að ræða. Ég held að fæst okkar séu hissa, við erum bara þreytt. Þreytt á hatrinu og niðurlægingunni.
Fatlaðar konur eru sérstaklega viðkvæmur hópur. Við verðum jafnt fyrir hatri í samfélaginu vegna þess að við erum konur og vegna þess að við erum með fötlun. Og það er ekki hægt og má aldrei slíta þetta tvennt í sundur. Í upptökunum heyrðist svo gróft hatur gegn fatlaðri stjórnmálakonu, baráttukonunni Freyju Haralds, að ég get ekki haft það eftir. En við verðum að horfast í augu við það því Gunnar Bragi, Sigmundur Davíð, Bergþór Ólason, Anna Kolbrún, Karl Gauti og Ólafur Ísleifsson eru ekki bara eitthvað fólk út í bæ. Þau skipa 10% alþingis — og þau eru ekki ein um þessar skoðanir.
Og vitiði hvað? Enginn af þessum dónum hefur séð
sóma sinn í að biðja Freyju Haraldsdóttur afsökunar.
Ekki eitt þeirra. Iðrunin er ekki meiri en svo!
Við fatlaðar konur upplifum þetta hatur á eigin skinni í daglegu lífi. Við erum smánaðar, við erum stofnanavistaðar gegn vilja okkar, sviptar yfirráðum yfir líkömum okkar og þaggaðar í hel. En nú segjum við stopp. Hvert og eitt einasta okkar sem stendur hér í dag verður að standa upp og segja stopp við hatursorðræðu gegn jaðarsettum hópum.
Ég er glöð að þessar upptökur komu fram því þær varpa ljósi á þetta kerfisbundna vandamál. Við megum hins vegar aldrei, -aldrei- gleyma að á bakvið þessi ummæli eru einstaklingar og hópar af holdi og blóði. Niðurlægir og smættaðir einstaklingar sem báðu aldrei um þetta og gerðu ekkert rangt. Í fjölmiðlum óma nú fréttir um að fólk í valdamesta hópi landsins hafi kallað þig
Heimska
Kuntu
Tík
Líkami þinn og útlit smánað
Fötlun þín gerð að aðhlátursefni
Og vitiði hvað? Enginn af þessum dónum hefur séð sóma sinn í að biðja Freyju Haraldsdóttur afsökunar. Ekki eitt þeirra. Iðrunin er ekki meiri en svo!
Og ekki nóg með að þessi orð hafi verið látin falla heldur enduróma þau og sitja eftir á netinu sem engu gleymir.
Ég held að fyrir margar þessara kvenna muni ummælin draga dilk á eftir sér því samfélagið trúir körlum. Upphefur karla. Einhverjum mun finnast þetta sniðugt og hafa þetta eftir. Einhverjir munu gera grín. Hafa ummælin að gamanmáli í matarboðum, jólahlaðborðum, þorrablótum næstu árin.
“Þessi lætur karlana nú ekki í friði.”
“Ansi farið að falla á þessa.”
Og þess vegna verðum við að standa með þessum konum fram í rauðan dauðann. Að styðja þær og krefjast þess að þeir víki! Þeir þurfa að víkja. Því fyrir mér horfir þetta þannig við að ef þeir gera það ekki, er verið að taka þessum ógeðslegu ummælum og upplognum sökum um, og á þær af léttúð. Gefa skotleyfi á þessar konur áfram.
Hvað ætlar þú, sem ert komin hér í dag að gera? Til að styðja þær? Til að knýja fram afsögn?
Hér sjáum við valdamikla einstaklinga í samfélaginu fara fram af fullri hörku. Þeir virðast aumir og bera fyrir sig gríni, að ekkert megi lengur, að allir tali svona — en við, sem trúum á jafnrétti og mannúð, megum ekki leyfa því að gerast að þetta hafi engar afleiðingar. Fyrir einstaklingana sem urðu fyrir hatrinu og fyrir alla þá hópa sem þau standa í forsvari fyrir.
Hatrið má ekki sigra.
Birtist fyrst á Tabú.