Skip to main content
Frétt

Hagstofan birtir tölfræði um fatlað fólk

Tengill á umsögn ÖBÍ um endurskoðun örorkulífeyriskerfinsins

Umtalsvert færra fatlað fólk býr í eigin íbúð samanborið við ófatlað fólk. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýbirtri tölfræði á vef Hagstofunnar.

Hagstofan hefur birt tölfræðilega samantekt um fatlað fólk á Íslandi á tilraunatölfræðivef sínum. Tölurnar eru byggðar á manntali 1. janúar 2021 og úr gögnum sem var safnað veturinn 2021-22.

https://hagstofa.is/utgafur/tilraunatolfraedi/Fatlad-folk-a-Islandi-tt/

Í tölunum má finna upplýsingar um aldurssamsetningu hópsins, tekjur, búsetu, menntun og fleiri þætti.

Meðal annars kemur fram að fatlað fólk hefur að jafnaði lægri tekjur en ófatlað. Í öllum aldursflokkum er hlutfall fatlaðs fólks í neðstu tveimur tekjufimmtungunum hærra en ófatlaðs eða jafnhátt. Að móti er hlutfall ófatlaðs fólks hærra í efri tekjufimmtungunum tveimur.

„Birting þessara talna skiptir verulegu máli fyrir réttindabaráttu fatlaðs fólks. Þetta eru gögn sem hafa ekki verið aðgengileg áður og það er mikilvægt að fólk geti séð svart á hvítu hver staðan er og hvar vandinn liggur,“ segir Alma Ýr Ingólfsdóttir, formaður ÖBÍ réttindasamtaka.