Skip to main content
Frétt

Glæsilegur útskriftarhópur hjá Hringsjá

Tuttugu nemendur útskrifuðust frá Hringsjá, náms- og starfsendurhæfingu, í vikunni. Guðni Th. Jóhannesson forseti sá um að afhenda útskriftarskírteini ásamt Helgu Eysteinsdóttur forstöðumanni. Jógvan Hansen skemmti viðstöddum og fulltrúar útskriftarhópsins ávörpuðu gesti.

„Það voru 20 nemendur sem útskrifuðust. Flestir þeirra hafa þegar skipulagt áframhaldandi nám eða atvinnuþátttöku. Margir þeirra sem eru að útskrifast eru í fyrsta sinn að klára eitthvað og því leggjum við mikla áherslu á að hafa útskriftina hátíðlega. Þetta er mjög skemmtilegur og hæfileikaríkur útskriftarhópur sem við hlökkum til að fylgjast með í framtíðinni,“ segir Helga Eysteinsdóttir.

Markmið Hringsjár er að veita náms- og starfsendurhæfingu fyrir einstaklinga, 18 ára og eldri sem vegna sjúkdóma, slysa, fötlunar eða annarra áfalla þurfa á endurhæfingu að halda til að takast á við nám og/eða að stunda atvinnu á almennum vinnumarkaði. Námið hentar einnig þeim sem hafa litla grunnmenntun eða sértæka námserfiðleika. Stefnt er að því að þeir sem útskrifast frá Hringsjá séu færir um að takast á við nám í almennum framhaldsskólum og finna störf við hæfi á almennum vinnumarkaði.