Skip to main content
Frétt

Gagnleg fræðsla um sjálfboðaliðastjórnun

Sigurbjörg Birgisdóttir, sérfræðingur í sjálfboðaliðastjórnun og starfsmaður hjá Rauða krossinum, sótti ÖBÍ réttindasamtök heim í vikunni og hélt námskeið um sjálfboðaliðastjórnun. Námskeiðið var vel sótt en það var hluti af fræðsluröð ÖBÍ fyrir aðildarfélög.

Námskeiðið var ætlað öllum þeim sem starfa með sjálfboðaliðum og hugsað fyrir öll aðildarfélög. Eftir námskeiðið áttu þátttakendur að hafa öðlast þekkingu á þáttum árangursríkrar sjálfboðaliðastjórnunar, geta beitt þeim og geta gert einfalda áætlun fyrir sjálfboðaliðastjórnun hjá sínu félagi/verkefni. Á námskeiðinu voru kynntir 10 þættir árangursríkrar sjálfboðaliðastjórnunar;

  • Þarfagreining
  • Áætlun
  • Sjálfboðaliðaöflun
  • Móttaka
  • Úthlutun verkefna
  • Fræðsla og þjálfun
  • Stuðningur
  • Viðurkenning og hvatning
  • Mat
  • Þátttökulok

Eins og áður segir var verkefnið liður í fræðsluröð ÖBÍ fyrir aðildarfélög. Þegar hafa nokkur námskeið verið haldin í vetur. Má þar nefna „Greinaskrif sem vopn í baráttunni“ sem Björg Árnadóttir rithöfundur, ritlistarkennari og blaðamaður kenndi, námskeið Hauks Inga Jónassonar, lektors við HR, í verkefnastjórnun og námskeið Ágústs Ólafs Ágústssonar hagfræðings þar sem fjárlög ríkisstjórnarinnar voru krufin, leiðbeiningar gefnar um umsagnagerð og hagsmunagæslu.