Skip to main content
Frétt

Fyrirhuguð hækkun örorkubóta undir væntingum

By 8. júlí 2015No Comments

Halldór Sævar Guðbjartsson, varaformaður Öryrkjabandalags Íslands, segir í viðtali við Vísi fyrirhugaðar hækkanir örorkubóta talsvert undir þeim væntingum sem vonast hafi verið eftir.

„Nú hækkuðu lágmarkslaun í almennum kjarasamningum 1.maí um 31 þúsund krónur en okkur sýnist að þessi hækkun sem fjármálaráðherra boðar sé um 17-20 þúsund krónur, hjá þeim sem eru með strípaðar bætur, en þær eru á bilinu 172 þúsund til 192 þúsund. Hækkunin er því talsvert undir væntingum,“ segir Halldór. Því verði bæturnar aldrei jafn háar og lágmarkslaun á almennum vinnumarkaði. 

Fólk nær ekki endum saman

„Þessi hækkun kemur líka seint. Það eru fordæmi fyrir því að bætur almannatrygginga hafi hækkað eða lækkað á miðju ári en þarna er verið að tala um að öryrkjar þurfi að bíða í átta mánuði, eða til áramóta, þegar þessi hækkun á að koma inn. Eins og við sjáum er verðlag á mat og öðru að hækka og fólk nær ekki endum saman. Það er veruleiki sem við sjáum dags daglega,“ bætir hann við. Því sé farið fram á að lífeyrir verði sambærilegur lágmarkslaunum í landinu.