
Fimmtudaginn 20. mars sl. var haldinn fundur um aukna atvinnuþátttöku fatlaðs fólks á fræðslufundi hjá Félags- og húsnæðismálaráðuneyti. Á fundinum héldu erindi, þau Gunnar Alexander Ólafsson hagfræðingur ÖBÍ réttindasamtaka, Sara Dögg Svanhildardóttir sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun og Sunnar Elvira Þorkelsdóttir lögfræðingur hjá ÖBÍ réttindasamtökum.
Gunnar Alexander sagði að næsta haust munu taka gildi breytingar á örorkulífeyriskerfinu sem fela í sér nýja hugsun sem ætlað er að leiði af sér meiri hvata til atvinnuþátttöku fólks með skerta starfsgetu. Aukin atvinnuþátttaka þessa hóps kallar á fjölgun hlutastarfa á vinnumarkaði.
Sara Dögg sagði frá aðferðafræði kennd við Unndís, sem er aðferðafræði sem Sameinuðu þjóðirnar hafa notað til að fjölga hjá sér starfsfólki með skerta starfsgetu. Markmið Unndísar er að styðja með afgerandi hætti við fyrirtæki með ráðgjöf, fræðslu og eftirfylgd svo fjölgun hlutastarfa verði að veruleika. Vinnumálastofnun hefur verið falið að leiða Unndísi og hefur átt samstarf við opinberar stofnanir sem og fyrirtæki að innleiða aðferðafræðina Unndísi með það að markmiði að fjölga störfum meðal fólks með skerta starfsgetu.
Sunna Elvira sagði að það væri mýta að það sé vesen að ráða fatlaðan einstakling. Hún sagði frá sagði frá eigin reynslu af að koma aftur á vinnumarkað eftir að hafa orðið fyrir mænuskaða í slysi. „Með týnda fjársjóðnum á ég við fatlað fólk sem er búið að mennta sig og býr yfir góðri starfsreynslu og hæfni, en fær ekki tækifæri eða starf við hæfi af því að vinnuveitendur eiga til að vera hræddir við að ráða inn fatlaðan einstakling eða halda að það fylgi ráðningunni kostnaður og vesen,“ sagði Sunna Elvira. „Í flestum tilfellum þarf bara að gera einfaldar breytingar, til dæmis að setja upp einn ramp, kaupa hækkanleg eða lækkanleg skrifborð, bjóða upp á sveigjanlegan vinnutíma, hlutastarf eða heimavinnu sem kostar ekki neitt. Þessi mýta, að það sé vesen að ráða inn fatlaðan einstakling, hefur orðið til þess að fullt af hæfileikaríku fólki fær ekki tækifæri til að láta ljós sitt skína og týndi fjársjóðurinn finnst ekki.“