Fullt hús var á Þjóðfundi ungs fólks, sem ungÖBÍ hélt í samstarfi við Landssamband ungmennafélaga og Landssamtök íslenskra stúdenta, á föstudag. Ríflega sextíu manns á aldrinum 18-35 ára sóttu fundinn til að ræða inngildingu, jafnrétti og aðgengi í íslensku samfélagi.
Fundurinn samanstóð bæði af uppbyggilegri borðavinnu og hins vegar fyrirlestrum. Á meðal fyrirlesara voru til dæmis Atli Már Steinarsson útvarpsmaður, sem ræddi um lífið með ADHD og OCD, og Sigríður Gísladóttir og Þórunn Edda Sigurjónsdóttir frá Okkar heimi sem fjölluðu um áhrif fordóma á geðfatlaða einstaklinga og börn þeirra.
Á meðal þess sem fundargestir sammæltust um var að víða væri pottur brotinn þegar kemur að inngildingu og raunverulegu jafnrétti hér að landi. Aðgengismál þarf að laga, ungu fólki er illa treyst, samgöngur ekki nógu góðar og þekkingarleysi og fordómar viðgangast.
Líta þurfi til þess að bæta aðgengi að húsnæði og samgöngum og hafa hlutaðeigandi hópa með í að finna lausnir sem gagnast. Þá þurfi að stórauka fræðslu til að fyrirbyggja fordóma og stjórnvöld þurfa að mynda heilstæða stefnu um málefni ungs fólks, svo fátt eitt sé nefnt.