Skip to main content
Frétt

Fullt fjármagn þarf svo markmið náist

By 17. janúar 2017No Comments

Öryrkjabandalag Íslands gerir margháttaðar athugasemdir og tillögur um breytingar á tillögu til þingsályktunar um stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2017 til 2021. Þær voru lagðar fram í lok nóvember í fyrra og eru nú til meðferðar í velferðarráðuneytinu.

Þingsályktunartillagan byggir á niðurstöðum starfshóps sem þáverandi félags- og húsnæðismálaráðherra, Eygló Harðardóttir, skipaði sumarið 2015. Í hópnum sátu fulltrúar ÖBÍ, Þroskahjálpar, Sambands Íslenskra sveitarfélaga, velferðarráðuneytis og velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.

Meginmarkmið framkvæmdaáætlunarinnar er að efla, verja og tryggja full mannréttindi fyrir fatlað fólk til jafns við aðra. Hún á að skapa skilyrði fyrir fatlað fólk til að lifa sjálfstæðu lífi á eigin forsendum. Í meginmarkmiðunum kemur einnig fram að innleiða skuli samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) í alla lagaumgjörð og framkvæmd.

ÖBÍ setur fram athugasemdir sínar til að ítreka mikilvægi þess að hugmyndafræði sem samningurinn byggir á sér höfð að leiðarljósi við stefnumótun og áætlanagerð í málefnum fatlaðs fólks og við innleiðingu SRFF.

ÖBÍ bendir á að framkvæmdaáætlun eigi að stuðla að réttarbótum fyrir fatlað fólk og því verður orðalag hennar að vera hnitmiðað og skýrt. Jafnframt verði hún að vera að fullu fjármögnuð svo markmið hennar náist.

Fjármagnið sem lagt sé í hvern lið framkvæmdaáætlunar, ef það er tekið fram, sé almennt afar takmarkað og gefi óraunhæfa mynd. Það geti orðið til þess að þau verkefni eða aðgerðir sem tilgreind séu verði ekki að veruleika eða aðeins framkvæmd að takmörkuðu leyti.

ÖBÍ tiltekur einnig að hvergi í framkvæmdaáætluninni sé að finna kafla um „seinfæra foreldra“. Foreldrum með þroskahömlur fari fjölgandi. Það sé mikilvægt að þessum foreldrum og fjölskyldum þeirra sé veittur viðeigandi stuðningur og þjónusta svo þeir og börn þeirra búi við sömu tækifæri og aðrir.

Þá sé heldur hvergi að finna aðgerðir til þess að sporna gegn fátækt, en margt fatlað fólk búi við fátækt.

 

Nokkrar helstu tillögur ÖBÍ um breytingar á þingsályktunartillögunni: 

  • Aðgengiseftirlit skuli bundið í lög og reglugerðir og skuli vera á hendi sveitarfélaga. Á þeim stöðum þar sem eldvarnareftirlit sé á höndum slökkviliða fái þau það hlutverk að vakta allar gerðir húsnæðis með aðgengiseftirliti sem framkvæmt sé á sama hátt og á sama tíma og eldvarnareftirlit.
  • Lagt er til að lagabreyting Alþingis frá því í lok desember 2016 um málefni fatlaðs fólks verði endurskoðuð og að sjálfstætt líf fatlaðs fólks verði tryggt til frambúðar með lögfestingu NPA (notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar) hið fyrsta.
  • Fötluðu fólki hefur ekki boðist nein úrræði nema hefðbundin bankalán til að gera nauðsynlegar úrbætur á húsnæði sínu um langt skeið. ÖBÍ leggur til að Íbúðalánasjóður geti veitt hvoru tveggja lán og styrki vegna endurbóta á íbúðarhúsnæði líkt og norski Húsbankinn, sem taki mið af fjárhagsgetu viðkomandi í hverju tilfelli. Jafnframt ættu opinberir aðilar að veita árlega fjárveitingu til að setja upp lyftur og bæta aðgengi í sameign íbúðarhúsnæðis sem verði aldrei lægri en 50% af framkvæmdakostnaði.
  • Bent er á mikilvægi þess að náið samráð sé haft við fatlað fólk og hagsmunasamtök þess þegar tekið sé mið af vernd og framgangi mannréttinda fatlaðs fólks í stefnumótun og áætlanagerð. Þá er vakin sérstök athygli á mikilvægi þess að leitað sé samráðs við hagsmunasamtök fatlaðra kvenna og barna þar sem SRFF kveður sérstaklega á um réttindi þessara hópa.
  • Til þess að allt fatlað fólk fái fleiri atvinnutækifæri og atvinnu við hæfi, í samræmi við áhuga og menntun, þarf að lögfesta bann við mismunun á grundvelli fötlunar. Ganga þarf í að klára þá vinnu sem þegar hefur verið hafin hjá Velferðarráðuneytinu í þá veru. Löggjöfinni er ætlað að uppfylla hluta krafna í SRFF um jafnrétti og bann við mismunun.