Skip to main content
Frétt

Fréttir mánaðarins: Flutningar og fræðsla á fyrsta mánuði ársins

Árið 2023 fer vel af stað hjá ÖBÍ réttindasamtökum. Janúarmánuður var viðburðaríkur. Skrifstofurnar voru fluttar, sendur var fjöldi umsagna um þingmál, staðið var að málstofu og fræðslu og ýmsu öðru. Hér verður stiklað á stóru yfir mánuðinn sem er að líða.

Helstu fréttir

Skrifstofur ÖBÍ réttindasamtaka voru fluttar upp á 2. hæð í Sigtúni 42 seinni hluta mánaðar. Opnunartími móttöku er enn óbreyttur eða 9:30 – 15:00 alla virka daga.

Stjórnvöld birtu drög að Grænbók um mannréttindi þar sem kveðið er á um að stofnuð verði sjálfstæð Mannréttindastofnun. ÖBÍ réttindasamtök binda vonir við að þessi vinna leiði til þess að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði lögfestur hratt og örugglega. Þannig verða réttindi fatlaðs fólks á Íslandi best tryggð.

Þá hefur Tryggingastofnun ríkisins stofnað nýja stöðu umboðsmanns viðskiptavina. Í frétt á síðu stofnunarinnar sagði að meginhlutverk umboðsmannsins sé að leiðbeina viðskiptavinum í meðferð mála hjá stofnuninni og aðstoða þau sem telja sig ekki hafa fengið efnislega umfjöllun eða úrlausnir í samræmi við gildandi lög og reglur.

Einnig var greint frá því að búið sé að leiðrétta skerðingu greiðslna frá Tryggingastofnun vegna útgreiðslu séreignarsparnaðar á tímabilinu 1. apríl til 31. desember 2020 og frá 12. maí til 31. desember 2021, samkvæmt upplýsingum frá Skattinum.

Útgreiðsla séreignarsparnaðar á þessu tímabili átti ekki að hafa áhrif á lífeyrisgreiðslur (framfærsluuppbót) frá TR en vegna rangrar skráningar í framtali voru greiðslur til fjölda fólks skertar.

Viðtalsröðin „Fólkið í ÖBÍ“ fór í loftið í síðustu viku. ÖBÍ réttindasamtök munu á næstu vikum birta viðtöl við fjölda fólks innan bandalagsins, bæði með léttum, persónulegum spurningum en einnig um málefni fatlaðs fólks.

Viðburðir og uppákomur

Fræðsluröð ÖBÍ hélt áfram í janúar. Haldin var fræðsla um notkun samfélagsmiðla í réttindabaráttu þann 25. janúar.

Á námskeiðinu lærðu þátttakendur að nýta sérhæfða og öfluga möguleika samfélagsmiðla í réttindabaráttu og markaðsstarfi. Fjallað var um samfélagsmiðlun sem virkar og hvernig ná megi forskoti með mikilli útbreiðslu og lægri kostnaði en með hefðbundnum leiðum.

Þriðjan málstofa um aðgengi í samstarfi við LHÍ, Arkítektafélag Íslands og Húsnæðis- og Mannvirkjastofnun var haldin miðvikudaginn 25. janúar. Málstofan hafði yfirskriftina „Góð hönnun er fyrir alla: Aðgengismál fyrir yngri kynslóðina – skólar og leikskólar“.

Þá var fyrsta aðgengilega bensínstöð landsins opnuð á Orkustöðinni á Suðurfelli. Þuríður Harpa, formaður ÖBÍ réttindasamtaka, og Margrét Lilja, formaður Sjálfsbjargar, fylltu á tankinn.

Umsagnir um þingmál

ÖBÍ réttindasamtök skiluðu inn allnokkrum umsögnum um margbreytileg þingmál í janúar. Í umsögn um breytingu á lögum um fjölmiðla segir til að mynda: „ÖBÍ hefur um árabil vakið athygli á skorti á textun innlends sjónvarpsefnis, sem hefur valdið því að heyrnarskert fólk, aldraðir, börn og innflytjendur hafa ekki haft sömu tækifæri og aðrir til að fylgjast með og taka þátt í umræðu um samfélagsleg málefni.“

Þingsályktunartillaga um aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum 2023-2027 var til umsagnar sömuleiðis. ÖBÍ bindur miklar vonir við að staðið verði við þau markmið og undirmarkmið sem fram koma í aðgerðaráætluninni enda eru ríki skuldbundin til að virða, vernda og uppfylla réttinn til andlegrar heilsu í innlendum lögum, reglugerðum, stefnumótun, fjárveitingum, áætlunum og öðru sem þau hafa forgöngu um.

Einnig voru sendar inn umsagnir um mál sem varða breytingar á byggingarreglugerð og breytingar á lögum um almannatryggingar.