Skip to main content
Frétt

Forseti Íslands kallar eftir réttlæti

By 2. janúar 2020No Comments
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson flutti ávarp sitt að venju á nýársdag. Forseti kom víða við í ræðu sinni og sagði einn helsta tilgang ávarps forseta að efla bjartsýni frekar en bölmóð, samhug heldur en sundurlindi. Í lok ávarps síns svaraði forseti einfaldri spurning sem hann fékk er hann var að leggja drög að ávarpi sínu. Hvað óttastu mest um framtíð Íslands?

Og svar forseta var svohljóðandi:

„Eftir stutta umhugsun kvaðst ég helst óttast að ágreiningur og illdeilur yfirgnæfi einingu um grunngildi okkar, og sömuleiðis að almenn vongleði og dugur víki smám saman fyrir svartsýni og doða. Og hvað þarf til að svo fari ekki? Hver eru grunngildin? Á hverju getur vonin byggt? Ekki á lygi og svör verða seint einhlít en sé okkur ókleift að sameinast um það sem hér fer á eftir er illt í efni: Við þurfum að verja og efla það samfélag sem veitir öllum jöfn tækifæri til að sýna hvað í þeim býr en knýr fólk um leið til að leggja fram sinn sanngjarna skerf í almannaþágu. Enginn má skerast úr leik og allra síst með bellibrögðum. Við þurfum samfélag þar sem þeir njóta aðstoðar sem á henni þurfa að halda, þar sem enginn í nauðum þarf að ganga með betlistaf. Við þurfum samfélag víðsýni, umburðarlyndis og réttlætis, samfélag fjölbreytni, frelsis og friðar.“