ÖBÍ réttindasamtök stóðu fyrir málþingi, héldu formannafund og hýstu norræna vinnustofu í apríl auk þess að senda frá sér fjölda umsagna um þingmál.
Viðburðir og fundir
Lögfesting Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, styrkir Erasmus+ og málefnastarf ÖBÍ voru til umræðu á vel heppnuðum formannafundi ÖBÍ réttindasamtaka þann 5. apríl. Fulltrúar úr félagsmálaráðuneytinu voru gestir fundarins og héldu kynntu vinnu við landsáætlun í málefnum fatlaðs fólks. Farið var yfir starf 11 vinnuhópa frá í nóvember, rætt um stofnun mannréttindastofnunar og í framhaldinu lögfestingu SRFF. Þá mættu einnig fulltrúar frá Erasmus+ á fundinn og fóru yfir verkefni og styrki til ungmenna á aldrinum 13-30. Inngilding er þema þessara verkefna og á fatlað fólk því að geta fengið styrki til náms og þjálfunar
Þann 13. apríl mættu í Sigtún 42 fulltrúar frá íslenskum félagasamtökunum auk starfsfólks dönsku hugveitunnar Tænketanken Mandag Morgen og dönsku stofnunarinnar DIVE. Var þar haldin fyrsta vinnustofa Nordic Platform for Civil Society. Málefni fólks í viðkvæmri stöðu á Íslandi voru til umræðu á fundinum og samstarf félagasamtaka í málaflokknum sömuleiðis. Góður samhljómur var á meðal fundargesta. Á vinnustofunni gafst fundargestum tækifæri til þess að koma að mótun þeirra áherslna sem unnið verður með í framhaldinu. Til stendur að halda sambærilegar vinnustofur á öðrum Norðurlöndum þar sem staðan í hverju landi fyrir sig verður tekin fyrir áður en fundað er um stöðuna og samstarfið á Norðurlöndum í heild.
Barnamálahópur ÖBÍ stóð fyrir málþinginu „Eru íþróttir fyrir alla?“ á Reykjavík Hilton Nordica 26. apríl og var þingið afar vel sótt. Átta fluttu fyrirlestra um alla króka og kima umræðuefnisins. Hér má sjá upptöku af þinginu:
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ réttindasamtaka, sótti fjölda funda með ráðamönnum sem og stjórnarfund og ráðstefnu EDF í Stokkhólmi. 17. apríl átti Þuríður fund með félags- og vinnumarkaðsráðherra og með fjármálaráðherra sama dag. Þar voru til umræðu hækkun lífeyris, endurskoðun almannatryggingakerfisins, kjör fatlaðs fólks og önnur mál. Að auki mætti formaður ásamt starfsmanni húsnæðishóps á fund velferðarnefndar til að fylgja eftir umsögn um tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk fyrir árin 2024–2028 og á viðburð á Garðatorgi í Garðabæ þar sem settur var upp rampur númer 450 í átakinu Römpum upp Ísland.
Aðalfundur Íslenskrar getspár var haldinn á Grand hotel 26. apríl sl. Þar fór Stefán Konráðsson framkvæmdastjóri fyrirtækisins m.a. yfir reikningana og er ljóst að afkoman hefur aldrei verið betri. Arður af starfseminni rennur til ÖBÍ, ÍSÍ og UMFÍ og styður þannig við réttindabaráttu fatlaðs fólks, íþrótta- og ungmennastarf í landinu. Bergur Þorri Benjamínsson og Þóra Þórarinsdóttir verða áfram aðalmenn ÖBÍ í stjórn ÍG og Þuríður Harpa og Eva Þengilsdóttir varamenn.
View this post on Instagram
Fjölmiðlar
Umfjöllun fjölmiðla skiptir sem áður máli fyrir starfsemi ÖBÍ og var enginn skortur á fréttamálum í apríl.
Ánægjulegt var að Alþingi hafi samþykkt að mæðra-/feðralaun komi ekki lengur til skerðinga á framfærsluuppbót hjá einstæðum foreldrum sem fá greidd mæðra-/feðralaun með tveimur börnum eða fleiri.
Sömuleiðis var gott að Umboðsmaður Alþingis hafi í áliti sagt að Reykjavíkurborg hafi brotið lög með að bjóða ekki afsláttarkort fyrir akstursþjónustu fatlaðs fólks eins og gert er með afsláttarkort í Strætó. Á þetta hafa ÖBÍ réttindasamtök bent og þrýst á úrbætur.
@obirettindasamtok „Umboðsmaður Alþingis hefur komst að þeirri niðurstöðu að gjaldskrá Reykjavíkurborgar fyrir akstursþjónustu fatlaðs fólks tryggi ekki með fullnægjandi hætti að gjald fyrir þjónustuna sé sambærilegt gjaldi fyrir almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu líkt og lög um félagsþjónustu sveitarfélaga kveði á um.“#GoSpring ♬ Let’s go – Official Sound Studio
Aðgengismálin voru til umræðu eins og áður og lýstu ÖBÍ réttindasamtök undrun á því að meirihluti umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgari hafi í síðustu viku hafnað tillögu um að borgin hvetji handhafa stæðiskorta hreyfihamlaðra til að skila inn kvittunum og fara fram á endurgreiðslu eftir að hafa greitt fyrir að leggja í bílastæðahúsum borgarinnar. Reykjavíkurborg ákvað í mars að falla frá innheimtu gjalds af handhöfum stæðiskorta sem leggja í bílastæðahúsum. Þetta gerðist eftir langvarandi þrýsting ÖBÍ réttindasamtaka sem bentu á að samkvæmt umferðarlögum megi handhafar stæðiskorts fyrir hreyfihamlaðra leggja í öll gjaldskyld bílastæði án greiðslu.
Niðurskurður og bág fjárhagsstaða sveitarfélaga vöktu athygli og sagði Þuríður Harpa formaður í viðtali við mbl.is að það sé áhyggjuefni að niðurskurður á sveitarstjórnarstiginu geti bitnað á þjónustu við fatlað fólk. „Það sem hætt er við að gerist í hagræðingarfasa sveitarfélags er að fatlaðir einstaklingar innan þess missi þjónustu og njóti þar með ekki réttinda sinna. Það er því brýnt að ríkið skoði vel hvort það þurfi ekki að tryggja fullnægjandi fjármagn til málaflokks fatlaðs fólks hjá sveitarfélögum“.
Þá sagði Þuríður í viðtali við Vísi: „Ég get alveg skilið og tekið undir með sveitarfélögum að þau hafa þarna málaflokk sem þeim er lögbundin skylda til að sinna. Málflokkur fatlaðs fólks er bara einn af mörgum en hann er svo vanfjármagnaður af ríkinu til sveitarfélaga að þau eru eiginlega komin að þeirri niðurstöðu að þau nái ekki að þjónusta fatlað fólk eins og þeim ber vegna þess að það vanti fjármagn frá ríkinu.“
Umsagnir
Eins og áður sendu ÖBÍ réttindasamtök frá sér umsagnir um fjölda þingmála í apríl. Þar ber hæst umsögn um fjármálaáætlun fyrir árin 2024-2028 en í henni sagði meðal annars: „Alþingismenn þurfa því að velta fyrir sér af hverju það er sanngjarnt að fatlað fólk fái lægri framfærslu heldur en sá sem er á lágmarkslaunum, sem eru ekki há.“
Einnig voru sendar inn umsagnir um mál sem tengjast samgöngum, þjónustu við eldra fólk, félagslega aðstoð og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum svo fátt eitt sé nefnt. Allar umsagnir má nálgast hér