ÖBÍ réttindasamtök birta um þessar mundir viðtöl við fjölda fólks innan bandalagsins, bæði með léttum, persónulegum spurningum en einnig um málefni fatlaðs fólks. Þetta viðtal er við Vilhjálm Hjálmarsson, formann heilbrigðismálahóps ÖBÍ.
Hvers vegna starfar þú í réttindabaráttu fatlaðs fólks?
Eftir ADHD greiningu dældi minn geðlæknir í mig fræðigreinum og ábendingum um lesefni. Internetið var einnig að opnast meira á þessum tíma og ég hreinlega gleypti í mig allt sem mér fannst áhugavert varðandi ADHD. Á mínu æskuheimili hefur alltaf verið rætt opinskátt um geðheilsu rétt eins og hvað annað heilsutengt, því lá eiginlega beint við að ég færi að tjá mig um ADHD málefni á opinberum vettvangi. Þetta aftur leiddi mig síðar til stjórnarstarfa hjá ADHD samtökunum og þá um leið vinnu innan vébanda ÖBÍ.
Fyrir hverju brennur þú?
Aðgengi að heilbrigðisþjónustu fyrir alla óháð efnahag og baráttu gegn fordómum sem hindra fólk í að sækja sér þá aðstoð sem til þarf. Leggja mitt af mörkum til að fjölbreytileiki samfélagsins og einstaklingar innan þess fái notið sín.
Hver eru áherslumálin hjá málefnahópnum þínum?
Þessa dagana er þung áhersla á að skikki sé komið á samninga SÍ við sérgreinalækna og sjúkraþjálfara og um leið að kostnaðarþátttaka vegna sálfræðiþjónustu taki flugið. Koma þarf hreyfingu á endurskoðun á reglum um hjálpartæki eftir að ákveðinn grunnur var lagður fyrir nokkru. Lyfjaöryggi og aðgengi er sífellt uppi á borðum. Eins er eitt af langtímamarkmiðum að auka greiðsluþáttöku hins opinbera vegna læknis- og lyfjakostnaðar.
Hvert er þitt uppáhalds áhugamál?
Fyrir utan málefni ADHD þá fylgist ég með leiklist og kvikmyndagerð.
Hvað er uppáhalds lagið þitt?
Sweet Transvestite
Hvað er það skrýtnasta sem þú manst eftir að hafa gert?
Fyrir utan að vera Georg varamörgæs í aukavinnu? Væntanlega að talsetja talandi klósettsetu!
Hefur þú átt gæludýr?
Nei. En búið með tveimur köttum, sem kannski áttu mig frekar en öfugt.
Hver er síðasta bókin sem þú last?
Reykjavík, glæpasaga.