ÖBÍ réttindasamtök munu á næstu vikum birta viðtöl við fjölda fólks innan bandalagsins, bæði með léttum, persónulegum spurningum en einnig um málefni fatlaðs fólks. Fyrsta viðtalið er við Atla Þór Þorvaldsson, formann kjarahóps ÖBÍ.
Hvers vegna starfar þú í réttindabaráttu fatlaðs fólks?
Ég er með Parkinsonveiki og kynnist fólki í Parkinson samtökunum. Ég hóf að starfa í málefnahópi um kjaramál öryrkja hjá ÖBÍ sem fulltrúi Parkinson samtakanna. Þar hef ég kynnst betur en áður þeirri neyð sem fjölmargt fatlað fólk býr við fjárhagslega. Það er nógu slæmt að glíma við fötlun, en það er þjóðfélagsmein hvernig stjórnvöld hafa ákveðið að þorri fatlaðs fólks eigi að búa við fátækt.
Fyrir hverju brennur þú?
Ég brenn fyrir bættum kjörum fatlaðs fólks. Ég brenn fyrir rétti fatlaðra til mannsæmandi lífs.
Hver eru áherslumálin hjá málefnahópnum þínum?
Helstu áherslumálin eru hækkun almannalífeyris, dregið verði verulega úr tekjaskerðingum og að kjörin muni auk þess batna með tímanum.
Hvert er þitt uppáhalds áhugamál?
Golf. Leik golf mér til ánægju og heilsubótar. Mæli sérstaklega með þessu lýðheilsusporti.
Hvað er uppáhalds lagið þitt?
Það koma mörg lög upp í hugann. Get nefnt One með U2 og Bohemian Rhapsody með Queen.
Hvað er það skrýtnasta sem þú manst eftir að hafa gert?
Kafað í hellum við eyjuna Rhodos. Kannski var það enn skrýtnara þegar ég söng lag úr Dýrunum í Hálsaskógi fyrir vinahóp í útilega 🙂
Hefur þú átt gæludýr?
Já bæði hund og gára (páfagauk).
Hver er síðasta bókin sem þú last?
Stóri bróðir eftir Skúla Sigurðsson.