Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, boðar á vefsíðu sinni frumvarp um breytingar á 69. grein laga um almannatryggingar til samræmis við útreikningsreglu þingfararkaups. Túlkun þessarar greinar hefur verið bitbein til fjölmargra ára.
Lífeyrir almannatrygginga er uppfærður árlega í samræmi við þá reglu sem sett er fram i 69. grein laga um almannatryggingar. Þar segir:
„Bætur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 63. gr. og fjárhæðir skv. 22. gr., skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.“
Fjármálaráðuneytið hefur í fjölmörg ár túlkað þessa grein á þann hátt að lífeyrir almannatrygginga hækki í samræmi við forsendur fjárlaga hverju sinni. Fyrir stuttu birtist hér á síðunni skýrsla Kolbeins Stefánssonar félagsfræðings, um tilurð og framkvæmd 69. greinarinnar.
69. greinin inniheldur það sem kallaður er tvöfaldur lás. Það er, að bætur almannatrygginga skuli breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni og taka þá mið af launaþróun. Það er fyrri lásinn. Seinni lásinn er þá að bætur almannatrygginga skuli aldrei hækka minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.
Helstu niðurstöður skýrslu Kolbeins eru einmitt að þessi tvöfaldi lás hafi ekki haldið. Hann hélt þó að mestu fram til ársins 2007, en næstu ár, fram til 2015, dróust greiðslur almannatrygginga aftur úr lægstu launum fyrir fullt starf, og kaupmáttur þeirra stóð nánast í stað.
Skýrsluna má í heild sinni finna hér.
Nú hefur Björn Leví boðað frumvarp, sem breytir þessari reglu 69. greinarinnar, til samræmis við útreikningsreglu þingfararkaups. Breytingartillagan hljóðar svo:
„Bætur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 63. gr. og fjárhæðir skv. 22. gr., skulu endurreiknaðar og þeim breytt fyrir 1. júlí ár hvert. Hagstofa Íslands reiknar og birtir fyrir 1. júní hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næstliðið almanaksár. Við mat á launabreytingum skal Hagstofan afla skýrslna og gagna sem hún telur nauðsynleg og gerir jafnframt eigin kjararannsóknir eftir því sem þörf krefur. Tryggingastofnun ríkisins uppfærir krónutölufjárhæðir til samræmis við tölur Hagstofunnar áður en kemur til greiðslna fyrir júlí. Krónutöluhækkanir í kjarasamningum opinberra starfsmanna skulu endurspeglaðar í krónutöluhækkunum fyrir bætur almannatrygginga, greiðslur skv. 63. gr. og fjárhæðir skv. 22. gr.“
Hér setur Björn þó inn þá viðbót að taka skuli tillit til þess ef gerðar eru krónutöluhækkanir í kjarasamningum opinberra starfsmanna. Þá skuli þær einnig eiga við lífeyri almannatrygginga en ekki vera umreiknaðar í hlutfallslega hækkun.
Björn tiltekur einnig í færslu sinni að þrátt fyrir þessa breytingu, þurfi að leiðrétta sérstaklega upphæðir samkvæmt almannatryggingum, enda hafa þær dregist aftur úr lágmarkslaunum, til að þær nái launaþróun. Björn birtir töflu um þróun launa og ber saman við þróun lífeyris almannagtrygginga og þingfararkaups. Niðurstaðan er að frá árinu 2000 hefur launaþróun verið 304%, hækkun almannatrygginga 206% og laun þingmanna 329%.
Grein þingmannsins má lesa í heild sinni hér.