Fjölmenni var á málþingi um innleiðingu Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðst fólks (SRFF) sem haldið var á Grand hóteli í Reykjavík þriðjudaginn 16. maí kl. 13-17. Rætt var um reynslu sveitarfélaga af innleiðingu sáttmálans, væntingar þeirra og aðferðir. Danskur sérfræðingur gerði grein fyrir reynslu Dana af innleiðingu SRFF.
Rannveig Traustadóttir, prófessor við Háskóla Íslands, gerði grein fyrir tilurð og uppbyggingu sáttmálans. Guðlaug Kristjánsdóttir, forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðarbæjar, og Gunnar M. Sandholt, félagsmálastjóri sveitarfélagsins Skagafjarðar, sögðu frá reynslu af innleiðingu sáttmálans og áskoranir fyrir félagsþjónustu sveitarfélaganna.
Þá ræddi Maria VentegodtLiisberg, frá mannréttindastofnun í Danmörku, innleiðinguna í Danmörku. Hún fjallaði um hvernig sveitarfélögin þar í landi vinni með sáttmálann í reynd og hvernig hægt sé að mæla framþróun í málaflokknum.
Málþingið var haldið í samvinnu Sambands íslenskra sveitarfélaga, Landssamtakanna Þroskahjálpar, Öryrkjabandalags Íslands og Rannsóknaseturs í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands. Velferðarráðuneytið styrkti málþingið.