
Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, var á meðal þeirra sem hélt tölu á formannafundi ÖBÍ réttindasamtaka í gær. Fundurinn var haldinn í Mannréttindahúsinu og var vel sóttur og vel heppnaður.
Ráðherra gerði að umræðuefni sínu helstu verkefni ráðuneytisins þessa dagana. Má þar helst nefna yfirvofandi gildistöku nýrra laga um breytingar á lífeyriskerfinu, innleiðingu samþætts sérfræðimats og svo frumvarp um að hækkun lífeyris skuli fylgja launavísitölu eða verðbólgu eftir því hvort er hærra.
Að erindi ráðherra loknu var farið yfir ýmis verkefni skrifstofu ÖBÍ. Héldu starfsmenn kynningu um UNNDÍSi og fyrirlestra um dómsmál sem rekin eru af ÖBÍ og vinnu við gerð umsagnar um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Einnig var farið yfir vinnu tilmæla til sérfræðinefndar SÞ og yfir hinar væntanlegu breytingar á örorkulífeyriskerfi almannatrygginga.
Formannafundnir ÖBÍ eru haldnir tvisvar á ári með þeim tilgangi að tryggja samráð og upplýsingamiðlun milli stjórnar og aðildarfélaga. Boðaðir eru formenn allra aðildarfélaga ÖBÍ.