Meðferð á fötluðu fólki hefur verið slæm. Allt frá því að umönnun þess var boðin upp í hreppum landsins, það bundið við staur, sent til stofnana eða geymslustaða líkt og Arnarholt virðist hafa verið. Alla tíð hefur verið litið á fatlað fólk sem byrði á þjóðfélaginu og því neitað um virðingu og mannréttindi.
Það er því mikilvægt, nú þegar hneykslunaraldan ríður yfir þjóðfélagið, að við stöldrum við og skoðum hvað hefur breyst. Hvað hefur breyst í okkar huga, í afstöðu okkar gagnvart fötluðu og langveiku fólki? Eru fordómar okkar jafn miklir nú og þeir hafa verið? Nú er rétti tíminn fyrir hvern og einn að líta í eigin barm og velta því fyrir sér. Því fordómar og vanþekking er uppspretta illrar meðferðar.
Á Arnarholti virðist fólk hafa verið svelt til hlýðni. Ekki fengið mat ef viðvera þess í matsal hentaði ekki yfirvaldinu, og það lokað inni vikum saman.
Hefur þetta í eðli sínu nokkuð breyst?
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ: „Núverandi stefna stjórnvalda er enn að svelta fatlað fólk til hlýðni. Það er gert nú með því að skammta nógu naumt fjármagn. Tölum bara hreint út, fatlað fólk er svelt til hlýðni, þegar örorkulífeyrir er svo naumt skammtaður að hann dugir ekki fyrir brýnustu nauðsynjum eins og húsaskjóli, mat og lyfjum, nema fram yfir miðjan mánuð, þegar búið er að velta hverri krónu marg sinnis fyrir sér.“
Við erum kannski ekki með stofnanavætt harðræði lengur, en kerfislægt harðræði er samt búið þeim sem fæðast fatlaðir, fatlast eða veikjast á lífsleiðinni.
Þess vegna er mikilvægt að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þess vegna er mikilvægt að fatlað fólk og langveikt, geti lifað sjálfstæðu lífi.
Þess vegna er mikilvægt að hægt sé að lifa af örorkulífeyri.
Öryrkjabandalagið harmar valdníðslu á fötluðu fólki bæði þá og nú og hvetur stjórnvöld til að tryggja fötluðu fólki „líf til jafns við aðra“. Hugur okkar er hjá þeim sem máttu þola þessa nauðungarvist, sem og hjá aðstandendum og öllu fötluðu fólki á Íslandi. Stjórnmálamenn nútímans hvetjum við til að íhuga hvernig söguritarar framtíðar fari með verk þeirra, því í því samfélagi sem við höfum búið okkur, finnast örugglega fleiri Arnarholt. Kannski er eitt í næsta húsi við þig.
Mál er að linni!