Það hefur um þó nokkra hríð verið eitt af baráttumálum ÖBÍ að Tryggingastofnun gefi á ný út slíkt skírteini, sem stofnunin gerði, en hætti. Staðan hér er að einstaklingar geta prentað út slíkt skírteini sjálfir, en það er aðgengilegt á mínum síðum TR. Reynslan er hins vegar sú að fáir taka slíkt skírteini gilt, prentað á heimilisprentara og sem verður fljótt þvælt.
Málið var tekið upp við ráðherra fyrir nokkru á einum af reglulegum fundum með honum, og tók ráðherra undir mikilvægi þess að þessu yrði breytt.
Þuríður Harpa Sigurðardóttir tók málið einnig upp á fundi með nýjum forstjóra TR, Huld Magnúsdóttur, fyrr í sumar.
Það er ljóst að innlent skírteini til staðfestingar fötlunar, er forsenda þess að fá samevrópskt skírteini gefið út.
Evrópusambandið hefur verið með þetta skírteini í nokkurs konar prófunar ferli undanfarin ár, í 8 ríkjum sambandsins, verkefni sem lauk að formi til 2018 og var í Belgíu, Kýpur, Eistlandi, Finnlandi, Ítalíu, Möltu, Rúmeníu og Slóveníu. Í skýrslu um verkefnið, sem gefin var út árið 2021, kemur fram að reynslan hafi almennt verið jákvæð. Útgangspunktur verkefnisins var að þau ríki sem tóku þátt, viðurkenndu hið samevrópska skírteini og veittu þeim sem það bar, sömu afleiddu þjónustu og íbúum ríkisins. Það er, hér er ekki rætt um réttinda greiðslur, heldur þau sérstöku kjör sem fötluðu fólki bjóðast víða um ríkið. Til dæmis afsláttur í kvikmyndahús og aðra afþreyingu, réttinn til að fara fram hjá röð að þjónustu og þess háttar.
Um alla Evrópu eru fyrirtæki sem bjóða sérstök kjör eða þjónustu til fatlaðs fólks, og þetta skírteini á að tryggja þeim sem heimsækja landið, sömu þjónustu og ríkisborgarar þess lands.
Í skýrslunni um tilraunaverkefnið kemur fram að reynslan af því sýni að skírteini sem þetta muni auðvelda fötluðu fólki til muna að ferðast milli landa Evrópusambandsins, en væntanlega verður innlent skírteini forsenda þess að fá það evrópska gefið út. Það er von ÖBÍ að því verði kippt í liðinn. Fötluðu fólki stendur til boða ýmis konar sérkjör, afslættir og þjónusta hér, en það getur í raun ekki sýnt fram á að það eigi rétt á henni, án slíks skírteinis. Það er ástæða til að minna á að ekki er öll fötlun sýnileg.