Skip to main content
Frétt

Enn ósamið við tannlækna

By 4. júlí 2018No Comments

Ekki hafa tekist samningar milli Sjúkratrygginga Íslands og Tannlæknafélagsins, um gjaldskrá vegna tannlækninga öryrkja og aldraðra. Samkvæmt yfirlýsingu frá heilbrigðisráðuneytinu frá því í byrjun maí er markmiðið ríkisins í samningunum að byggja á tillögum starfshóps heilbrigðisráðherra um aukna greiðsluþátttöku ríkisins í tannlækningum fyrir öryrkja og aldraða. Nokkuð er síðan starfshópurinn skilaði tillögum sínum.

Gert er ráð fyrir því á fjárlögum að 500 milljónum króna verði ráðstafað sérstaklega til þessa máls, að draga úr greiðsluþátttöku öryrkja og aldraðra vegna tannlækninga. Almennt er gert ráð fyrir einum milljarði króna á ári til verkefnisins, frá og með næstu áramótum. Því hefur verið búist við því að sá hálfi milljarður sem til ráðstöfunar er í ár, yrði nýttur frá miðju ári. Nú er hins vegar komið fram yfir mitt ár.

Erfiður fjárhagur fólks

Samkvæmt upplýsingum Öryrkjabandalags Íslands hefur ekkert gengið að koma á samningi milli Sjúkratrygginga Íslands og tannlækna. Það er mjög miður, því á meðan þarf fólk sem hefur lítið milli handanna enn að bíða, eins og það hefur þurft að gera um langa hríð.

Þetta skiptir verulegu máli þar sem ferðir til tannlæknis eru eitt það fyrsta sem víkur þegar fjárhagurinn er erfiður. Þannig hafa athuganir Hagstofunnar sýnt að þúsundir manna hafa sleppt tannlæknaheimsóknum vegna kostnaðar.

Ekki eftir neinu að bíða

„Þetta er mikilvægt skref og tímabært að taka á þessum málum þar sem þeir hópar sem hér um ræðir hafa allt of lengi borið skarðan hlut frá borði. Íslendingar hafa verið eftirbátar nágrannaþjóðanna í tannheilsumálum en nú erum við að rétta úr kútnum.“

Þetta sagði Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, í yfirlýsingu á vef ráðuneytisins nú í byrjun maí.

Hins vegar er nú ljóst að samningar eru ekki að takast. Markmið og fjármagn eru fyrir hendi svo það er ekki eftir neinu að bíða.

Öryrkjabandalag Íslands hvetur til þess að samningum verði lokið sem fyrst, svo öryrkjar og aldraðir geti farið til tannlæknis.

Peningar eru á fjárlögum ársins til að lækka kostnað lífeyrisþega vegna tannlæknaþjónustu, þó að þeir nægi ekki til að  tryggja fullar endurgreiðslur í fyrsta áfanga. Nú liggur á að Sjúkratryggingar Íslands semji við tannlækna um nýja gjaldskrá og uppfærslu á aðgerðaskrá. Svo þarf að tryggja fjármagn til fullra endurgreiðslna á næstu fjárlögum.