Málið er tilkomið vegna kvörtunar Birgittu Maríu Braun, sem sætti sig ekki við að TR skilgreindi greiðslur sem hún fékk frá Þýskalandi sem greiðslur úr lífeyrissjóði, og skertu þar með tekjutryggingu hennar hér, tekjutryggingu sem þegar hafði verið skert vegna búsetu hennar í Þýskalandi.
Í stuttu máli kemst Umboðsmaður að því að hvorki TR, né Úrskurðarnefnd um velferðarmál, hafi í raun upplýst málið til hlítar. Við athugun sína kemst Umboðsmaður að því að rannsókn TR og Úrskurðarnefndarinnar á því hvers eðlis greiðslurnar eru, hafi fyrst og fremst falist í mati á almennum upplýsingum, sem finna mátti á heimasíðu Deutsche Rentenversicherung. Um þá málsmeðferð segir umboðsmaður:
Og síðar segir í álitinu að ekki verði ráðið af gögnum málsins að þær almennu upplýsingar á heimasíðu Versorgungseinrichtung, sem úrskurðanefndin vísar til, hafi lotið sérstaklega að greiðslum til Birgitte. Þannig verði hvorki ráðið hvaða upplýsinga var aflað af hálfu úrskurðarnefndarinnar, eða Tryggingastofnunar af heimasíðu X, né hvort þær gátu orðið grundvöllur samanburðar á bótagreiðslum.
Fyrir lágu í málinu upplýsingar um að ákvörðun Versorgungseinrichtung um greiðslur til Birgitte beri ekki annað með sér en að þær svari einungis til grunnlífeyris sem tryggi henni grunnframfærslu. Í reglugerð Evrópusambandsins nr. 987/2009 er beinlínis kveðið á um þá meginreglu að stofnun sem tekur við skjali útgefið af stofnun í öðru EES ríki, skuli biðja útgáfustofnunina um nauðsynlegar skýringar ef vafi kemur upp um nákvæmndi staðreynda sem lýst er í skjalinu.
„Ekki er hins vegar gert ráð fyrir að leyst verði úr slíkum álitaefnum út frá almennum upplýsingum á heimasíðu stofnunarinnar sem gaf út skjalið eða annara stofnana“
Umboðsmaður telur jafnframt tilefni til að taka sérstaklega fram að sú afdráttarlausa afstaða Tryggingastofnunar sem lýst er í bréfi hennar til Birgitte, að stofnunin meðhöndli allar lífeyrisgreiðslur sem eru ákvarðaðar út frá fyrri launum eða vegna greiðslu iðgjalda, sem lífeyrissjóðsgreiðslur, „kunni að vera tilefni til að taka framkvæmd Tryggingastofnunar að þessu leyti til almennrar athugunar á grundvelli 5. Gr. Laga nr. 85/1997 um umboðsmann Alþingis.
Umboðsmaður vísar í álitinu til dóms Evrópudómstólsins í máli C-453/14 Knauer, þar sem sérstaklega er tekið fram að grundvöllur samanburðar á því hvort bætur séu jafngildar lúti að markmiði og lagagrundvelli bótagreiðslna. Í þeim samanburði hafi ekki þýðingu hvernig tryggðir einstaklingar hafi áunnið sér bótarétt eða hvort þeir eigi val um að öðlast frekari bótarétt í öðru ríki. Samkvæmt því geti bætur sem greiddar eru á grundvelli starfstengdra réttinda í einu ríki, talist jafngildar bótum sem veittar eru á lögbundnum grundvelli í öðru EES ríki.
Niðurstaða umboðsmanns er því að úrskurðarnefnd velferðarmála hafi ekki leyst með réttum hætti úr máli Birgitte, og beinir því til nefndarinnar að taka málið upp aftur. Jafnframt beinir umboðsmaður því til nefndarinnar að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem reifuð eru í álitinu um túlkun þess hvenæar um sambærilegar bætur er að ræða frá þeim ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við og eiga aðild að EES samningnum.