Skip to main content
DómsmálFrétt

Ekki heimilt að skilyrða NPA samning við greiðslu ríkisins

By 25. mars 2021október 16th, 2023No Comments
Héraðsdómur Reykjavíkur felldi þann 24. mars, dóm þess efnis að Mosfellsbæ hefði verið óheimilt að binda NPA samning við fjárframlag frá ríkinu. Var sveitarfélagið dæmt til að greiða Erling 700 þúsund krónur í miskabætur vegna dvalar hans á hjúkrunarheimilinu, auk þess sem Mosfellsbær er gerður ábyrgur fyrir því fjártjóni sem Erling hefur orðið fyrir meðan á þvingaðri dvöl hans hefur staðið.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ:

„Þetta er mikill sigur fyrir fatlað fólk, því mikill fjöldi manns er á biðlista eftir notendastýrðri persónulegri aðstoð, eða hefur hreinlega verið synjað um hana, vegna þess að sveitarfélögin benda á að ríkið hafi ekki fjármagnað sinn hluta. Í þessum dómi eru þær mótbárur slegnar út af borðinu. Það er stórkostlegt réttindamál.“

Mosfellsbær hefur um langa hríð synjað Erling Smith um NPA samning, á grundvelli þess að framlög frá ríki skorti. Erling hefur þess í stað verið vistaður á hjúkrunarheimili, gegn eindregnum vilja hans.

Rök sveitarfélagsins voru fyrst og fremst þau að ekki væri hægt að bjóða upp á NPA samning, ef ekki væri tryggt að mótframlag ríkisins, upp á 25% af kostnaði, bærist. Nú liggur fyrir dómur þar um. Mosfellsbær hefur 4 vikur til að ákveða hvort dómnum verður áfrýjað.

Í niðurstöðu dómara segir að í lögum nr 38/2018 sé ekki að finna heimild til þess að binda rétt fatlaðs fólks því skilyrði að fjárfamlög berist frá ríkissjóði. Það megi því einu gilda gagnvart stefnanda hvernig skiptingu kostnaðar milli ríkis og sveitarfélaga er háttað og fallist á að slík skilyrðing eigi sér ekki lagastoð.

Þá telur dómurinn að dráttur sá sem varð á afgreiðslu umsóknar Erlings um NPA, sé saknæmur, en 27 mánuðir liðu frá því að Erling sótti um NPA, þar til þjónusta hófst. Það var undir rekstri málsins, í febrúar 2021, sem sveitarfélagið samþykkti loks NPA samninginn.

„Sá óhæfilegi dráttur sem varð á afgreiðslu málsins leiðir jafnframt til þess að skilyrði um saknæmi telst einnig uppfyllt. Málsmeðferðin hafi því falið í sér meingerð gegn réttindum stefnanda til fjölskyldu- og einkalífs.“

Með vísan til þessa voru Erling dæmdar miskabætur, hæfilega ákveðnar 700 þúsund krónur, vegna dvalar hans gegn vilja sínum á hjúkrunarheimili. Mosfellsbær hefur fjórar vikur frá uppkvaðningi dóms, til að áfrýja til Landsréttar.