Skip to main content
AðgengiFrétt

Ekkert eftirlit með ólögmætum rukkunum

P-merkt bílastæði

ÖBÍ réttindasamtök lýsa óánægju með að ekkert eftirlit sé með því hvort handhafar stæðiskorta fyrir hreyfihamlað fólk séu rukkaðir fyrir að leggja í einkareknum bílastæðahúsum. Í umferðarlögum stendur skýrum stöfum að handhafa stæðiskorts sé „heimilt að leggja ökutæki í gjaldskylt bifreiðastæði án sérstakrar greiðslu“.

Innviðaráðherra staðfesti í svari við fyrirspurn Guðmundar Inga Kristinssonar þingmanns í dag að ráðuneytið haldi enga skrá yfir gjaldskyld bílastæði og að hvorki ráðherra né undirstofnanir hafi eftirlitsheimildir með einkaaðilum sem reka slík bílastæði.

Að sama skapi staðfesti ráðherra að ráðuneyti hans hafi borist erindi um að handhafar stæðiskorta séu krafðir um greiðslu fyrir afnot af bílastæðum. Sagði hann ljóst að rekstraraðilar telji sér ekki skylt samkvæmt umferðarlögum að bjóða handhöfum stæðiskorta að leggja endurgjaldslaust en að það stangist á við lagatúlkun ráðuneytisins.

Reykjavíkurborg hætti í vetur að rukka handhafa stæðiskorta fyrir að leggja í bílastæðahúsum eftir þrýsting frá ÖBÍ réttindasamtökum og álit innviðaráðuneytisins um að ekki mætti rukka. Enn er þó rukkað fyrir að leggja á hinum ýmsu einkareknu stæðum.