Skip to main content
Frétt

Byrjunarlið Íslands tilkynnt

By 30. ágúst 2018No Comments

11 íslenskar konur, sem allar glíma við parkinsonsjúkdóminn ganga inn með íslenska landsliðinu þegar liðið mætir Þýskalandi 1. september

Á laugardaginn fyrir leik Íslands og Þýskalands heldur vitundarvakning um parkinsonsjúkdóminn áfram, en vakningin hófst þegar karlalið Íslands keppti við Gana fyrir HM fyrr í sumar. Þá munu ellefu konur sem greinst hafa með parkinson, ganga inn á leikvöllinn og standa samhliða íslenska landsliðinu undir þjóðsöngnum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Parkinsonsamtökunum.

„Við viljum helst vekja athygli á aukningu fólks með parkinson hér á landi, aðallega vegna lengri lífaldurs, en flestir greinast eftir sextugt. Það vantar aðstöðu fyrir fólkið og því söfnum við fyrir parkinsonsetri” segir Vilborg Jónsdóttir, formaður Parkinsonsamtakanna.

Byrjunarlið Íslands sem gengur inn á völlinn er skipað eftirtöldum leikmönnum:

Malín Brand 37 ára 

Greindist fyrir rúmu einu og hálfu ári. Malín vinnur sem blaðamaður, þýðandi og sjálfstætt starfandi ljósmyndari. Hún er í hlutastarfi hjá ABC barnahjálp og stundar nám í þýðingafræði við Háskóla Íslands. 

Hanna Vilhjálmsdóttir 44 ára 

Greindist í ágúst 2015 þá 41 árs. Hanna er menntaður kennari, en fór í bókhaldsnám eftir greiningu og vinnur nú við bókhald. 

Salóme Halldóra Gunnarsdóttir 49 ára 

Greindist í janúar 2017. Starfar sem hjúkrunarfræðingur í hálfu starfi á Landspítala. 

Vilborg Jónsdóttir 56 ára

Greindist árið 2015. Vilborg er formaður í parkinsonsamtökunum og starfar í eigin fyrirtæki. 

Anna Björg Siggeirsdóttir 57 ára

Greindist árið 2006. Anna vann við útgáfu og kynningarmál hjá VR en er núna í masternámi í ritlist í Háskóla Íslands.  

Kristín Þ. Guðmundsdóttir 58 ára 

Greindist í desember 2017. Kristín er fyrrverandi deildarstjóri á leikskóla, útivistarkona og lestrarhestur. 

Ólöf Ólafsdóttir fædd 62 ára 

Greindist fyrir þremur árum. Ólöf er bóndi í hálfu starfi. Hún saumar bútasaumsteppi / velferðarteppi til að þjálfa hendurnar. Allur ágóði af sölu teppanna rennur til velferðarmála. 

Guðrún  Hafdís Óðinsdóttir 63 ára  

Greindist árið 2012. Hún aðstoðaskólastjóri í 50 % starfi. Áhugamál eru fjölskyldan, hjólreiðar og gönguskíði. 

Jóhanna V Magnúsdóttir 65 ára 

Greindist um mitt ár 2015. Jóhanna vann áður við skrifstofustörf en hennar helsta áhugamál er að ferðast. 

Ingibjörg Hjartardóttir 67 ára 

Greindist fyrir 4 árum. Ingibjörg er rithöfundur og starfar sjálfstætt. Hún stundar nám í þýðingarfræði við Háskóla Íslands.  

Hrafnhildur Björk Sigurðardóttir 76 ára

Greindist í febrúar 2003. Starfaði áður sem útibússtjóri hjá Landsbanka Íslands. 

„Við erum ákaflega stolt af þessu flotta byrjunarliði okkar. Eins og sést á því þarf að leiðrétta þann misskilning að parkinson sé öldrunarsjúkdómur, en því miður er fólk að greinast með parkinson á öllum aldri og 1 af hverjum 10 er undir fimmtugu við greiningu,“ segir Vilborg ennfremur.

Söfnun fyrir Parkinsonsetri

„Í Parkinsonsetrinu er ætlunin að bjóða upp á fræðslu, þjálfun, ráðgjöf og dagvist með sérhæfðri endurhæfingu. Eins og staðan er í dag þá er þessi þjónusta ekki í boði fyrir fólk með Parkinson á Íslandi og það gengur ekki upp,“ bætir Vilborg við.

Hægt er að styrkja verkefnið með því að hringja í:

  • 907-1501 fyrir 1.000 kr. 
  • 907-1503 fyrir 3.000 kr. 
  • 907-1505 fyrir 5.000 kr.
  • 907-1510 fyrir 10.000 kr.

Nokkrar staðreyndir

  • Um 700 manns með parkinsonsjúkdóminn hér á landi
  • Parkinson er næst algengasti taugahrörnunarsjúkdómur í heimi á eftir Alzheimer
  • Parkinson er ekki öldrunarsjúkdómur – fólk er að greinast á öllum aldri
  • Félagar í Parkinsonsamtökunum telja um 620, rúmlega helmingur er fólk með sjúkdóminn
  • Markmiðið með vitundarvakningu og fjáröflun í leiðinni, er að opna fyrsta Parkinsonsetur á Íslandi þar sem boðið verður upp á fræðslu, stuðning, þjálfun og dagvist með sérhæfðri endurhæfingu.