Stjórn ÖBÍ réttindasamtaka ákvað á fundi sínum í síðustu viku að veita Brynju leigufélagi ses. 60 milljóna króna framlag til kaupa á þremur svonefndum bráðaíbúðum. Slíkum íbúðum er úthlutað til fólks sem lendir í bráðum húsnæðisvanda eftir slys eða sjúkdóm.
Styrknum er ætlað að mæta eiginfjárframlagi við kaup íbúðanna, en ekki fást stofnframlög til kaupanna þar sem ekki er gerð krafa um tekju-og eignamörk. Markmiðið er að koma til móts við mikla þörf fyrir slík úrræði og styðja við verkefni Brynju á þessu sviði.
„Bráðaúrræði eru tilraunaverkefni sem Brynja hefur unnið að síðan í september 2022 og er hugsað fyrir aðila sem standa frammi fyrir bráðum húsnæðisvanda vegna veikinda eða slyss. Um er að ræða tímabundið úrræði til þriggja ára og er það ekki háð sérstökum tekju- og eignamörkum eins og almennt er um úthlutanir hjá Brynju,“ segir Guðbrandur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Brynju.
Guðbrandur segir að úrræðið hafi þegar sannað sig. Það nýtist vel, bæði fólki utan af landi sem þarf að dvelja nálægt endurhæfingarúrræðum og fólkis em á ekki heimangengt í eigið húsnæði vegna hreyfihömlunar.
„Frá því að verkefnið hófst hefur Brynja úthlutað 7 íbúðum á grundvelli þessa úrræðis. Verkefnið lofar góð og er aukið framlag ÖBÍ á árinu 2023 vegna þessa verkefnis mikilvægur stuðningur við Brynju og hvatning til að festa verkefnið í sessi til framtíðar,“ segir Guðbrandur.