Brynja leigufélag hefur ákveðið að leiðrétta leiguverð á um helmingi íbúða sinna. Góður fyrirvari er gerður á leiðréttingunni eða 12 mánuðir. Þrátt fyrir þessa leiðréttingu mun Brynja eftir sem áður vera með lægstu meðalleigu af öllum aðilum hér á landi sem leigja út íbúðir.
Brynja hefur að öllu jöfnu ekki endurskoðað leiguverð á leigusamningum umfram þá hækkun sem er vegna þróunar vísitölu neysluverðs til verðtryggingar sem leigusamningar félagsins er bundnir við. Þessi ráðstöfun hefur orðið til þess að margir gamlir leigusamningar eru á lágu leiguverði og standa ekki undir rekstri viðkomandi íbúða.
Leiguverð hjá Brynju er það lægsta sem þekkist hjá óhagnaðardrifnum leigufélögum og er mikilvægt fyrir félagið að gæta jöfnuðar og tryggja að félagið hafi burði til að bæta við nýjum íbúðum sem hægt er að leigja út á hóflegu verði.
Í mars 2024 var mánaðarlegt meðalleiguverð hjá Brynju 143.224 kr. fyrir 75,7 fermetra íbúð og er það að meðaltali lægsta leiguverðið sem þekkist.
Hvers vegna er verið að leiðrétta leiguverð?
Stórir kostnaðarliðir á borð við fasteignagjöld, fráveitugjöld og brunatryggingar hafa hækkað mun meira en vísitala neysluverðs til verðtryggingar þar sem þessir gjaldaliðir eru tengdir fasteigna- og brunabótamati íbúðanna sem ákvarðað er af ríki og sveitarfélögum.
Nánari upplýsingar má nálgast á vef Brynju.
https://www.brynjaleigufelag.is/is/um-brynju/frettir/leidretting-a-leiguverdi-eldri-leigusamninga
ÖBÍ réttindasamtök benda jafnframt á að beina má fyrirspurnum til Brynju leigufélags á brynjaleigufelag@brynjaleigufelag.is eða í síma 570 7800.