Kveikið á vélunum og festið öryggisbeltin – það er kominn tími á Bílabíó á RIFF. ÖBÍ réttindasamtök styrkja verkefnið.
… komdu á bíl eða hesti, hjóli eða stól – og syngdu með og njóttu í næði …
Hið vinsæla bílabíó RIFF (Reykjavík International Film Festival) snýr aftur laugardaginn 21. september – og enn sem fyrr er það eitt það stærsta sem haldið hefur verið hér á landi, en síðast var það í boði haustið 2021.
Matarvagnar og popp og gos á staðnum til að gera upplifunina enn betri
Fullt verð fyrir hvern bíl 4990 krónur, en 3990 fyrir fatlað fólk
Sýndar verða fjórar sívinsælar bíómyndir að þessu sinni – og fyrir þá sem eru í bílum er einfalt að tengja útvarpið við rétta rás – og njóta svo bara í botn:
15:30 – BRÓÐIR MINN LJÓNSHJARTA 106 MÍN
Sænska myndin sem sló í gegn 1977 í leikstjórn Olle Hellblom og fjallar um viðureign bræðranna Karls og Jónatans við Þengil grimma og svartklæddu riddarana hans.
18:00 – MEÐ ALLT Á HREINU 99 MÍN
Sú ógleymanlega söngvamynd Ágústs Guðmundssonar frá 1982 þar sem liðsmenn Stuðmanna og Grýlanna fara á kostum í keppni tveggja hljómsveita sem fara um landið.
20:15 DRAUGASAGA 64 MÍN
Kynngimögnuð ræma Viðars Víkingssonar frá 1985 um læknanema sem tekur að sér næturvörslu í sjónvarpshúsi og kryddar þar sögur um meinta reimleika á staðnum.
21:30 TILBURY 53 MÍN
Önnur mynd úr fórum Viðars frá 1987 um sveitastrák á stríðsárunum sem horfir á eftir ástinni sinni í hendur hermanns, sem er kannski, þegar allt kemur til alls, bara tilberi.
Leikstjóri þessara tveggja mynda, Viðar Víkingsson og aðalleikari þeirra; Kristján Franklín, mæta í Víðidalinn og kynna myndirnar og setja sögusviðið í samhengi.
TAKTU FRÁ LAUGARDAGINN 21. SEPTEMBER Í VÍÐIDAL
Bílabíó RIFF gerir bíóupplifunina aðgengilega fyrir alla. Íslenskur texti verður við hverja mynd og sérmerkt stæði fremst við skjáinn fyrir bíógesti með fötlun sem fá 20% afslátt.
Sjálf kvikmyndahátíðin hefst svo í Háskólabíó 26. september og stendur til 6. október.