Ítarefni:
Samkvæmt fjármálaráðherra er ekki hægt að finna tímabil þar sem kaupmáttur örorkulífeyrisþega jókst hraðar en undanfarin átta. Til að fá mynd af þessu reiknuðum við hámarksupphæðir greiðsla Tryggingastofnunnar vegna örorku og leiðréttum fyrir verðlagsþróun frá október til októbermánaðar ár hvert.
Mynd 1 sýnir aukningu kaupmáttar örorkulífeyrisþega yfir átta ára tímabilið frá október 2012 til októbermánaðar 2020. Kaupmáttur þeirra hópa sem eru til skoðunar jókst á tímabilinu en mjög mismikið þó enda hafa þær hækkanir sem hafa verið gerðar á tímabilinu beinst að stórum hluta að afmörkuðum hópum, það er þeim sem eru einhleypir (sem er aðeins um þriðjungur örorkulífeyrisþega) og yngri örorkulífeyrisþega. Þannig jókst kaupmáttur þeirra sem fengu örorkumat 18 ára og voru einhleypir á tímabilinu um 39,5%. Ef þeir voru ekki einhleypir jókst kaupmátturinn hins vegar um 31,1% sem er 8,4 prósentustigum minna. Kaupmáttur annarra örorkulífeyrisþega sem voru ekki einhleypir og voru eldri þegar þau fengu örorkumatið jókst minna.
Það er lítið upplýsandi að horfa á hæstu mögulegu greiðslur frá Tryggingastofnun sem þau fá sem fengu örorkumat 18-24 ára og eru einhleyp því hópurinn sem um ræðir er fremur fámennur. Ekki liggur fyrir hvað hann er stór árið 2020 en samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun fengu hvorki fleiri né færri en níu einstaklingar hámarksgreiðslur árið 2019. Hámarksgreiðslurnar eru því ekki á neinn hátt lýsandi fyrir lífskjör örorkulífeyrisþega almennt.
En fjármálaráðherra skoraði á ÖBÍ að finna annað tímabil þar sem kaupmáttur öryrkja jókst meira en á undanförnum átta árum. Mynd 2 svarar þeirri áskorun.
Fyrir örorkulífeyrisþega sem voru einhleypir og voru 18 ára við örorkumat jókst kaupmáttur hámarksgreiðslna þeirra meira en viðmiðunartímabil ráðherra, á hvaða átta ára tímabili sem er frá október 1997 til október 2008. Fyrir örorkulífeyrisþega sem voru ekki einhleypir, jókst kaupmátturinn meira en á undanförnum átta árum á hvaða 8 ára tímabili sem er á milli október 1997 og október 2011, eða alveg fram að því tímabili sem fjármálaráðherra kaus að miða við.
Eftir stendur sú staðreynd, að örorkulífeyrir verður ekki nema 3/4 af lágmarkslaunum um áramótin næstu.