Skip to main content
Frétt

Árangursríkt ár að baki

Nú þegar nýtt ár er gengið í garð vilja ÖBÍ réttindasamtök líta um öxl og yfir þann árangur sem náðist á liðnu ári. Býsna mörg framfaraskref voru nefnilega stigin og því ber að fagna. Þann árangur má svo nýta til að knýja fram frekari umbætur á réttindum fatlaðs fólks á nýju ári.

ÖBÍ réttindasamtök óska öllum gleðilegs árs, með von um jöfnuð og réttlæti á nýju ári!

Nýtt lífeyriskerfi

Stærsta málið á síðasta ári var án nokkurs vafa heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu sem Alþingi samþykkti í sumar. Breytingarnar eru umfangsmiklar og taka gildi þann 1. september 2025.

ÖBÍ réttindasamtök höfðu lengi barist fyrir ýmsum breytingum sem náðu fram að ganga í þessari heildarendurskoðun. Má þar sérstaklega nefna einföldun kerfisins og minni tekjuskerðingar.

ÖBÍ sendi inn ítarlegar umsagnir við frumvarpið og fór á fundi með velferðarnefnd. Eftir bæði umsagnir og fundi, greinarskrif og minnisblöð var litið til athugasemda ÖBÍ í breytingartillögum sem velferðarnefnd gerði og fékk samþykktar.

Mannréttindastofnun

Lög voru sett um stofnun Mannréttindastofnunnar Íslands sem var mikið framfaraskref. Með því er Parísarviðmið Sameinuðu þjóðanna uppfyllt, eins og skylda ber til samkvæmt 33. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Með því að Mannréttindastofnun sé komið á laggirnar er ekkert lengur sem kemur í veg fyrir að Alþingi lögfesti loksins Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og er það mikið fagnaðarefni.

Landsáætlun í málefnum fatlaðs fólks

Alþingi samþykkti síðastliðið vor fyrstu landsáætlunina í málefnum fatlaðs fólks á Íslandi. Þessi áætlun felur í sér 60 aðgerðir til að koma í framkvæmd ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og er liður í lögfestingu samningsins á Íslandi, sem er löngu tímabær.

ÖBÍ réttindasamtök tóku virkan þátt í vinnuhópum sem unnu að gerð áætlunarinnar. Alls unnu 11 vinnuhópar að áætluninni og hagsmunasamtök fatlaðs fólks stýrðu og sátu í öllum þeirra auk fulltrúa sveitarfélaga og stjórnarráðsins. Þá voru samráðsfundnir haldnir um land allt sem fulltrúar ÖBÍ og annarra samtaka sóttu auk ráðherra.

Staðið vörð um persónuafsláttinn

Hætt var við brottfall persónuafsláttar lífeyristaka búsettra erlendis í nóvember eftir mikla baráttu bæði ÖBÍ réttindasamtaka og Landssambands eldri borgara. Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis svaraði ákallinu og lagði til að fallið yrði frá þessum áformum, sem síðan varð raunin.

Frumvarp sem fól í sér tillögu um brottfall persónuafsláttar lífeyristaka búsetta erlendis var lagt fram af fjármálaráðuneytinu á haustþingi 2023. ÖBÍ vakti strax athygli á málinu og benti á að lög þess efnis myndu hafa alvarleg áhrif á framfærslu fjölda lífeyristaka erlendis. Lögin voru samþykkt en vegna athugasemda ÖBÍ var gildistöku þeirra frestað og áskilnaður gerður um að áhrif laganna á lífeyristaka yrðu könnuð nánar.

Aðgengi í víðum skilningi

Áfram er unnið af hörku að úrbótum á aðgengismálum fatlaðs fólks. Margt hefur áunnist í málaflokknum á árinu. Má þar nefna samning ÖBÍ, menningar- og viðskiptaráðuneytisins og Sjá um greiningu á þörfum fatlaðs fólks fyrir vörur og hugbúnað sem byggja á máltækni. Einnig það að komið var upp í fyrsta sinn skilti fyrir stærri bílastæði hreyfihamlaðra, því fyrsta í heimi.

Bjart framundan

Málin sem hér hafa verið rakin eru einungis hluti af þeim árangri sem náðist í réttindabaráttu fatlaðs fólks á árinu og þótt árangurinn sé ríkur stendur enn margt eftir. Þar ber einna helst að nefna skert aðgengi að heilbrigðisþjónustu og hjálpartækjum, biðlista barna eftir greiningum, aðgengi að vinnumarkaði og svo óviðunandi kjör fatlaðs fólks.

Ný ríkisstjórn sagðist í stefnuyfirlýsingu sinni ætla að taka á þessum málum. Í yfirlýsingunni segir að kjaragliðnun launa og lífeyris verði stöðvuð og að lífeyrir muni hækka til samræmis við launavísitölu. Þá verði samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks lögfestur og stofnaður aðgengis- og aðlögunarsjóður til að styrkja fatlað fólk til breytinga á húsnæði. Stutt verði við atvinnuþátttöku fatlaðs fólks og hugað að stöðu þess í menntakerfinu.

Þetta eru fögur fyrirheit og er ÖBÍ reiðubúið í samráð og samstarf um þessi mikilvægu verkefni.