Skip to main content
Frétt

Ánægjuleg þróun í dráttarvaxtamáli

By 26. september 2019No Comments
Aðeins um 120 einstaklingar hafa sótt um niðurfellingu á skerðingu vegna fjármagnstekna, í kjölfar þess að þeir fengu dráttarvexti greidda frá Reykjavíkurborg á vangreiddan húsnæðisstuðning á árunum 2012 til 2016.

Ríkisútvarpið flutti fréttir af málinu um helgina og þar kom fram að félags- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, svaraði Öryrkjabandalaginu því til í bréfi fyrr á árinu, að ráðuneytið væri bundið af þeim lagaramma sem um málið gilti.

Ásmundur Einar kom á fund Velferðarnefndar Alþingis í gær þar sem hann var spurður út í málið. Ráðherra sagði á fundi nefndarinnar að nauðsynlegt væri að breyta lögum svo að dráttarvextir á vangreiddar bætur af hálfu ríkis eða sveitarfélaga séu ekki metnir sem fjármagnstekjur. Það væri nú verið að skoða í ráðuneyti hans. Það eru mjög ánægjulegar fréttir.

Þá sagði ráðherra einnig á fundi nefndarinnar, að það fólk sem hefði lent í þessu máli gæti sótt um niðurfellingu á bakreikningi frá Tryggingastofnun. Af þessum 500 sem geta gert það hafi hins vegar einungis 120 manns sótt um niðurfellinguna. Helga Vala Helgadóttir, formaður Velferðarnefndar, segir að nefndarmenn hafi gagnrýnt það harðlega. „Tryggingastofnun hefur mjög ríka leiðbeiningarskyldu – ekki síst þegar um er að ræða svona Viðkvæman hóp. Þarna hefðu þeir, finnst mér, bara átt að senda bréf á alla þessa 500 sem fengu kröfuna frá þeim. Það gerist því miður allt of oft að það falli á milli þylja hjá stofnunum að hafa frumkvæði að leiðbeiningum til borgaranna.“